144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

störf þingsins.

[13:56]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Eftir þennan „bjartsýnislestur“ ætla ég nú að bæta aðeins í. Ég hef miklar áhyggjur af stöðu Ríkisútvarpsins. Það er ekki út af engu vegna þess að framsóknarmenn hafa alltaf verið miklir vinir þessarar stofnunar [Hlátur í þingsal.] og voru m.a. einir í ríkisstjórn þegar hún var stofnuð — það er gott að gleðja.

Í nýlegri yfirlýsingu frá Ríkisútvarpinu segir að vandinn sé að mestu vegna gamalla lífeyrissjóðsskuldbindinga. Umfangsmiklar niðurskurðaraðgerðir undanfarins árs dugi ekki til að vega á móti niðurskurði á þjónustutekjum og útlit sé fyrir tap á rekstrarárinu 2013–2014.

Í fyrra var farið í allnokkrar aðgerðir í þessu hlutafélagi. Þar á meðal var fjölda fólks sagt upp með fáheyrðum fautaskap, en svo virðist sem hluti þess fólks hafi farið aftur inn um bakdyrnar sem verktakar. Ég get ekki séð fyrir mitt litla líf hvernig það á að vera ódýrara fyrir þetta hlutafélag. Síðan hefur komið í ljós að fyrirtækið er yfirskuldsett, eins og segir í fréttatilkynningunni, og ræður ekki við að borga afborganir næsta árs. Í því skyni hefur verið tekið lán undanfarin þrjú ár. Þetta er mjög alvarlegt.

Það sem mér finnst alvarlegast af öllu er að þegar farið var í hagræðingaraðgerðir og tíu manna framkvæmdastjórn sagt upp á einu bretti og — hvað var gert? Tíu voru ráðnir í staðinn. Það var ekki fækkað. Það eru 150 milljónir sem þessir tíu einstaklingar kosta með launum og launatengdum gjöldum.

Það sem mér finnst sýnu alvarlegast er að fyrrverandi stjórnendur Ríkisútvarpsins og núverandi benda hver á annan í því hvernig komið er fyrir stofnuninni. Það þykja mér svo alvarleg tíðindi að ég held að full ástæða sé til þess að það fari fram vönduð stjórnsýsluúttekt á Ríkisútvarpinu til þess að hægt sé að taka á vanda þess til framtíðar. (Gripið fram í: Heyr, heyr)