144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

þingstörf fram undan.

[14:07]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið í umræðunni undir liðnum störf þingsins hefur fólk miklar áhyggjur af nýjustu fregnum er varða lögregluna og vopnakaup. Við höfum verið herlaus þjóð, við höfum almennt ekki talist vera vopnuð þjóð, og því vakna auðvitað spurningar um á hvaða vegferð ríkisstjórnin er og mikilvægt að fá að vita hvort ráðuneytið og ríkislögreglustjóri tala einu máli. Samkvæmt fjárlagafrumvarpinu átti að efla almenna löggæslu og lögbundnar skyldur og samkvæmt mínum skilningi er það ekki að vopnavæða lögregluna. Því mun ég fara fram á það hér að fundur verði haldinn í allsherjar- og menntamálanefnd sem allra fyrst þar sem bæði ráðuneyti og ríkislögreglustjóri þurfa að mæta.