144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

þingstörf fram undan.

[14:09]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég tek undir með hv. þingmanni, til þess er ætlast að fagráðherrar séu hér í óundirbúnum fyrirspurnum einu sinni í viku, ekki einu sinni í mánuði. Það er lágmarkskrafa að ráðherra sem fer með jafn umfangsmikla málaflokka og hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra sé hér reglulega til svara og sem oftast raunar. Við þyrftum til dæmis að spyrja hana hvers vegna hún hefur horfið frá því að bjóða upp á óverðtryggð lán. Það er ekki alveg í samræmi við málflutning hæstv. ráðherra í samfélaginu.

Ég vil hins vegar fylgja eftir orðum mínum hér fyrr á fundinum um nauðsyn þess að ræða fréttir um stórfelld vopnakaup fyrir almenna lögreglu. Ég ítreka það og óska eftir því að gerðar verði ráðstafanir til að innanríkisráðherra geti rætt það í sérstakri umræðu í þingsalnum á morgun þannig að við fáum upplýsingarnar strax hér í þinginu um hvað er rétt og hvað rangt í þessu máli.

Það er ekki hægt að láta svona orðróm eða fréttaflutning vera óstaðfestan. Þetta verður að taka hér á dagskrá strax og ég óska eftir því að fram fari sérstök umræða á morgun þegar í upphafi þingfundar þar sem ráðherra getur (Forseti hringir.) gert grein fyrir þeim misskilningi sem hér hlýtur að vera uppi.