144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[14:13]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti meiri hluta efnahags- og viðskiptanefndar um frumvarp til laga um breytingu á lögum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, nr. 35/2014, frádráttarliðir. Nefndarálitið er að finna á þskj. 351 og ég vísa til þess þar sem ég mun ekki fara yfir skjalið frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriðin.

Málið var lagt fram á Alþingi 9. október og var rætt á þinginu 14. október. Efnahags- og viðskiptanefnd tók málið til umfjöllunar og fjallaði um það á þremur fundum. Á fund nefndarinnar komu tíu gestir og fjórar umsagnir bárust. Ég vil þakka gestum nefndarinnar fyrir framlag þeirra til málsins.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á 8. gr. laganna um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána þar sem kveðið er á um þá liði sem draga skal frá leiðréttingarfjárhæð samkvæmt 7. gr. laganna. Tilgangur frumvarpsins er að skýra nánar efni 8. gr. og tryggja samræmi í verklagi við frádrátt frá leiðréttingarfjárhæðinni.

Meginástæða þess að frumvarpið er lagt fram er að mögulega virðist hægt að halda því fram að úrræði sem einstaklingar hafa notið og eru sambærileg þeim úrræðum sem tilgreind eru í b- og c-lið 1. mgr. 8. gr. laganna falli ekki undir ákvæði greinarinnar og þau sé því ekki heimilt að draga frá leiðréttingarfjárhæð 7. gr. Ástæða þessa er að dæmi eru um að fjármálastofnanir hafi beitt úrræðum sem í eðli sínu falla undir ákvæði samkomulags um sértæka skuldaaðlögun, frá 31. október 2009, og samkomulags lánveitenda á íbúðalánamarkaði um verklagsreglur í þágu yfirveðsettra heimila, frá 15. janúar 2011, en geta lagalega talist falla utan þeirra. Að óbreyttu kann að verða umdeilanlegt hvort þeir sem notið hafa slíkra úrræða séu undanþegnir frádrætti samkvæmt 8. gr. laganna og eigi því rétt á óskertri leiðréttingarfjárhæð þrátt fyrir að staða þeirra sé í raun sambærileg stöðu þeirra sem nutu úrræða sem ótvírætt eru skilgreind í 8. gr. laganna.

Að mati meiri hlutans felur frumvarpið í sér eðlilega og skynsamlega tillögu um lagfæringu á löggjöf. Með frumvarpinu er stefnt að því að komið verði í veg fyrir að þeir sem eiga rétt á leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána verði meðhöndlaðir á mismunandi hátt þrátt fyrir að hafa notið úrræða sem í raun eru sambærileg.

Meiri hlutinn leggur til að frumvarpið verði samþykkt óbreytt.

Undir nefndarálitið rita hv. þingmenn Frosti Sigurjónsson, formaður og framsögumaður, Willum Þór Þórsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Pétur H. Blöndal, Oddgeir Ágúst Ottesen og Brynjar Níelsson.