144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[14:19]
Horfa

Guðbjartur Hannesson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég heyri að hv. þingmaður bendir á að ákveðið hafi verið að taka einungis fyrir mjög afmarkaða þætti. Þetta er leiðrétting á lögum. Ég hefði talið eðlilegt að menn tækju þá allt og skoðuðu, hafandi farið í gegnum þessar umsóknir allar, hvernig þetta kæmi út fyrir einstaka hópa.

Ég skil svar hv. þingmanns þannig að jafnræðis og sanngirni sé nú ekki að fullu gætt. Það er heiðarlegt að viðurkenna það.

Svarið kom ekki varðandi Hagstofuna eða búseturéttarfélögin nema ekki hafi verið ástæða fyrir nefndina að taka það upp.

Það er annað sem mig langar aðeins að ræða og spyrja hvernig hafi komið inn í þessa umræðu. Ég heimsótti Þjóðskrá í morgun og skoðaði hækkun á fasteignamati. Ef fjölbýli á höfuðborgarsvæðinu er skoðað þá er gríðarleg hækkun á raunmati þessara sömu eigna. Mig langar að heyra frá hv. þingmanni hvernig samspilið sé þarna á milli. Við töluðum um breytingu og forsendubrest á höfuðstól eignanna, þ.e. að lánin hækkuðu og menn töpuðu eignarhlut sínum í húsunum. Nú er sá eignarhlutur að myndast allmyndarlega þessi missirin. Hvernig er þetta tvennt metið saman út frá þeim hugmyndum að það eigi að leiðrétta einhvern forsendubrest? Maður spyr sig næstum því upphátt: Er forsendubrestur að fasteignamat á höfuðborgarsvæðinu hækki um svipaða upphæð, 18–20%, á mjög skömmum tíma þessi missirin?