144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[14:21]
Horfa

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Frosti Sigurjónsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þessar spurningar. Hv. þingmaður veltir fyrir sér hvort það hafi verið tilefni, fyrst búið var að opna lögin, að taka öll lögin til endurskoðunar. Það sjónarmið kom vissulega fram í nefndinni, að það hefði oft verið gert á þingi þegar lög væru opnuð þá væru þau skoðuð vítt og breitt. Ég kynnti mér hvort það væri eðlileg og góð regla. Það mundi til dæmis þýða að ef við værum að breyta einhverju litlu atriði í skattalögum þá þyrftum við að velta fyrir okkur öllum skattalögunum í leiðinni. Þá yrði lítið úr verki í þinginu og erfitt um vik í nefndinni að koma þeim málum í gegn og leggja mat á þau atriði sem mikilvægast er að ljúka við. Það var því ekki gert. Hins vegar var ákveðið að nefndin mundi taka til skoðunar framkvæmdina í heild sinni. Áhugi var á því hjá öllum nefndarmönnum að fá ráðuneytisfólk til þess að kynna framkvæmdina sjálfa svo að nefndin gæti haft eftirlit með því og spurt spurninga út fyrir þetta efni og almennt um framkvæmdina.

Varðandi fasteignamatið og hækkun þess á höfuðborgarsvæðinu þá hefur það vissulega hækkað mjög mismunandi eftir svæðum innan Stór-Reykjavíkursvæðisins. Þá kemur upp spurning sem byggir á miklum misskilningi því að þetta er almenn aðgerð. Þetta er svipað og að lenda í tjóni. Segjum að allir bílarnir í hverfinu hafi skemmst — átti þá fólkið sem vann í happdrætti eða var heppið af öðrum ástæðum ekki að fá tjónið bætt frá tryggingafélaginu? Þetta er sjónarmiðið. Í þessum lögum og í þessari aðferðafræði er ekki verið að flækja málið með því að sniðganga þá sem höfðu verði svo heppnir að eignir þeirra hækkuðu, enda erfitt að mæla það, (Forseti hringir.) eða bæta meira tjón þeirra sem höfðu orðið fyrir því að eignir á (Forseti hringir.) þeirra svæði lækkuðu almennt. Það var ekki hægt að leggja út í það.