144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[14:23]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Frosta Sigurjónssyni, formanni nefndarinnar og framsögumanni meiri hlutans, um að hér er um að ræða afmarkaða breytingu á lögunum um leiðréttingu verðtryggðra fasteignaveðlána, niðurfellingunni miklu. Þessi afmarkaða breyting hefði hins vegar átt að kalla á endurmat á ágöllum þessarar aðgerðar í heild, árangrinum af henni, sérstaklega í ljósi þess að nærri hálft ár er liðið frá því að lögin voru samþykkt og ekkert hefur verið gert af hálfu ríkisstjórnarinnar til að bæta úr augljósum ágöllum á málinu, t.d. með því að mæta þeim sem voru sérstaklega undanskildir áhrifum leiðréttingarinnar samkvæmt ákvæðum laganna sjálfra. Ekki hefur heldur verið gerður reki að því að leggja fyrir okkur boðlega greiningu á því hver vandinn er í raun þrátt fyrir að hér hafi fyrir meira en ári verið samþykktar fordæmalausar heimildir Hagstofunnar til að safna upplýsingum um fjárhagsstöðu heimila í því skyni að hægt væri að leggja mat á þann vanda sem við er að glíma.

Í frumvarpinu felst í sem allra stystu máli að víkka út þær heimildir sem í lögunum eru til þess að draga frá niðurfellingunni þær aðgerðir sem þegar hefur verið gripið til í tíð fyrri ríkisstjórnar og hafa skilað árangri til lækkunar skulda heimilanna.

Ég gagnrýndi mjög þær heimildir á liðnu vori vegna þess að það er engin hugsun í því af hálfu stjórnarmeirihlutans að undanskilja jafn ólíka hluti og sértæka skuldaaðlögun, sem er ígildi greiðsluaðlögunar þar sem tekið er tillit til greiðslugetu hvers einstaklings, hann þarf að losa sig við allar eignir sem hann hefur ekki ráð á, og svo 110%-leiðina sem var almenn aðgerð til þess að lækka skuldastöðu niður að verðmæti fasteignar. Fyrri aðgerðin er háð greiðslugetu og er þess vegna í eðli sínu félagsleg en sú seinni er hreinsunaraðgerð sem er bankalegri í eðli sínu og miðar að því að færa skuldsetningu að verðmæti eignar. Þetta eru fullkomlega ósambærilegar aðgerðir. Önnur er félagslegt úrræði, hin almenn aðgerð. Það eru engin efnisrök fyrir að leggja fyrirgreiðslu á þessum ólíku forsendum að jöfnu. Það kaus ríkisstjórnin samt að gera en girti ekki fyrir alls konar skilgreiningarvanda í því efni. Hinn augljósi skilgreiningarvandi sem ríkisstjórnin er núna komin í vandræði með er sú staðreynd að 110%-leiðinni var beitt af ákveðnum fjármálafyrirtækjum með almennum hætti áður en samkomulag var undirritað milli stjórnvalda og fjármálafyrirtækjanna um almenna beitingu hennar og að óbreyttum lögum hefði það fólk sem fékk 110% niðurfellingu snemma á árinu 2010 fengið fulla niðurfellingu en fólk sem fékk afgreiðslu eftir undirritun samkomulagsins 3. desember hefði fengið hana skerta. Það er þessi mismunun sem ætlunin er að girða fyrir. Til þess er fetað út í enn meiri skilgreiningarvanda. Búin er til ný skilgreining sem heitir „almenn lækkun eða niðurfelling fasteignaveðkrafna“. Það er ekki útskýrt sérstaklega í textanum hvað felst í „almennri“. Í umræðum fyrir nefndinni kom fram að litið væri svo á af hálfu fjármálaráðuneytisins að í „almennri“ fælist að viðkomandi banki hefði auglýst úrræðin og þau hefðu þá síðar orðið efni samkomulags milli ríkisvalds og fjármálafyrirtækja.

En margar aðrar lánastofnanir beittu á sama tíma svipuðum aðgerðum án þess að þær yrðu síðar kallaðar einhverju sérstöku nafni og gerðar að samkomulagsatriði milli stjórnvalda og einstakra lánafyrirtækja. Þess eru mýmörg dæmi að allt árið 2010, og 2009, hafi verið gripið til aðgerða í bankakerfinu varðandi skuldavanda einstaklinga eða ofveðsetningu, ýmist með tilliti til greiðslugetu eða án.

Niðurstaðan af þessu bixi stjórnvalda öllu saman er sú að þeir sem fengu almennar lausnir sem almennt voru boðnar öllum og auglýstar munu ekki njóta leiðréttingar til fulls en þeir sem fengu skuldirnar sínar lækkaðar vegna þess að þeir þekktu bankastjórann, áttu miklar eignir, áttu góða viðskiptasögu við bankann eða voru af einhverjum öðrum ástæðum í sterkari samningsstöðu geta fengið fulla niðurfellingu. Venjulega fólkið sem fór venjulegu leiðirnar sem almennt voru í boði verður skert. Hinir sem höfðu sérstaka aðstöðu til þess að semja um sín mál og gátu samið um sérkjör munu fá fulla niðurfellingu í boði ríkisins. Þannig er ósanngirninni í þessu máli viðhaldið og hún aukin um allan helming. Það verður þá fullkomlega mögulegt að fólk í fullkomlega sambærilegri stöðu fái gjörólík úrræði. Tökum sem dæmi fólk með yfirveðsett raðhús sem býr hlið við hlið. Annar aðilinn var svo óheppinn að vera í viðskiptum við Arion banka, fór þangað og fékk 110%-leiðina eins og hún var auglýst af hálfu Arion banka snemma á árinu 2010, löngu áður en samkomulag var undirritað milli lánastofnana og ríkisvaldsins. Maðurinn við hliðina var í einhverjum sparisjóði eða öðrum banka og samdi þar um svipaðar lausnir. Það var samið um svipaðar lausnir í öðrum fjármálafyrirtækjum. Þetta voru lausnir sem bankamenn töldu auðvelt og einfalt að framkvæma, réttmætar, til þess fallnar að bæta eignasafn bankans og auðvelt að rökstyðja fyrir eftirlitsaðilum. Það var líka þess vegna sem á endanum var samið um almenna beitingu 110%-leiðarinnar. Hún var einföld leið til að lækka skuldastöðu með bankalega framkvæmanlegum aðgerðum án þess að ríkið þyrfti að kosta þar til peningum en þannig að kröfuhafar þyrftu þá að verða fyrir tjóni og skrifa niður eignir.

Sú staðreynd sem varð ljós við samþykkt laganna í vor var að í þessu máli eru brotnar nokkurn veginn allar meginreglur laga um jafnræði, sanngirni, fyrirsjáanleika og lögmætar væntingar. Þessi aðgerð tekur einn tiltekinn hóp og eykur jafnræði meðal hans en viðheldur ójafnræðinu milli þessa hóps og allra annarra í sambærilegri stöðu. Að því leyti er þetta ekki jafnræðisaðgerð.

Eftir stendur síðan að á aðgerðinni stóru eru margháttaðir gallar og hafa komið fram. Sumir voru greindir hér og ræddir fyrir samþykkt laganna í vor. Ég nefni bara þá staðreynd að fólk sem er ekki vildarvinir ríkisstjórnarinnar og er svo ógæfusamt að búa í búseturéttaríbúðum — og þessi ríkisstjórn hefur einhverra hluta vegna allt á hornum sér gagnvart slíku fólki — er sérstaklega með undanþáguákvæði og sérákvæði í lögunum undanskilið áhrifum leiðréttingarinnar jafnvel þó að það fólk greiði af sérgreindum íbúðalánum, beri allan verðtryggðan forsendubrest eins og þeir sem búa í eigin húsnæði og fái meira að segja greiddar vaxtabætur frá sömu ríkisstjórn vegna afborgana af þessum lánum.

Með sérstöku ákvæði er þess líka gætt að fólk í leiguhúsnæði fái ekki að neinu leyti notið leiðréttingarinnar, aftur vegna þess væntanlega að fólk sem býr í leiguhúsnæði er ekki vinir þessarar ríkisstjórnar. Henni finnst eðlilegt að beita ríkisvaldinu sérstaklega til að hlunnfara það fólk um úrlausn sem annað fólk fær og á rétt á. Það þýðir ekkert að fussa yfir þessum staðreyndum. Menn leggja raunverulega lykkju á leið sína til að brjóta jafnræðissjónarmið, koma í veg fyrir að allir lántakendur í sömu stöðu njóti sömu úrlausnar og passa að undanskilja suma lántakendur til þess væntanlega að fólkið sem þar býr, hinir óæðri borgarar, fái ekki notið úrlausnar með sama hætti og þeir sem ríkisstjórnin vill sérstaklega hygla.

Gott og vel, við þessu var varað í vor. Þá var viðkvæðið frá stjórnarmeirihlutanum að það kæmu sérstakar úrlausnir fyrir fólk í búseturéttaríbúðum og leigufélög. Þær áttu að koma í haust. Nú er komið haust. Það sem meira er, það er byrjað að snjóa. Það er kominn vetur. Og enn bólar ekki á einni einustu úrlausn hvað varðar fólk í leiguhúsnæði eða búseturéttaríbúðum. Hálft ár er liðið hjá þessari verklausu ríkisstjórn og ekkert liggur eftir um efndir á fyrirheitunum frá því í vor um að komið yrði með sérstakar aðgerðir í haust til að mæta því fólki sem á búseturétt og er af einhverjum óskiljanlegum ástæðum undanskilið áhrifum niðurfellingarinnar eða aðgerðir vegna leigufélaganna sem líka eru undanskilin með sérstöku lagaákvæði.

Ég fer yfir þetta aftur. Meginregla stjórnarskrár, stjórnskipunarréttar og stjórnsýsluréttar í landinu er jafnræði fyrir lögum. Það er sett sérstakt ákvæði til að undanþiggja ákveðna tegund fólks áhrifum þessarar peningagjafar úr ríkissjóði. Fyrir því hafa engin haldbær rök verið færð. Fólk sem á búseturétt ber nákvæmlega sambærilegan kostnað af verðtryggðum lánum og fólk í eigin húsnæði. Það eru engin efnisrök að horfa á eignaformið sjálft. Fólk í verðtryggðri leigu hjá lokuðum leigufélögum, t.d. Öryrkjabandalaginu eða Félagsbústöðum, mundi strax njóta lægri leigu ef verðtryggðar lánaskuldbindingar þessara félaga yrðu lækkaðar.

Þá eru ótaldir aðrir hópar sem voru ekki látnir njóta leiðréttingarinnar. Ég nefni sérstaklega þann hóp sem var með gild erlend lán. Fjöldamörg erlend lán hafa verið dæmd ólögmæt en þúsundir lána hafa verið dæmdar löglegar. Það fólk hefði þar af leiðandi setið uppi með sín erlendu lán ef ekki hefði verið fyrir ákvæði laga nr. 151/2010, sem oft eru við mig kennd, sem umbreyttu þessum lánum fyrir fólk yfir í verðtryggð lán þannig að fólk losnaði að minnsta kosti úr spennitreyju gengistryggingarinnar. En það fólk býr við umgjörð verðtryggðs láns, það er búið að umbreyta láni sem það tók ekki sem verðtryggt lán yfir í verðtryggt lán. Ég hefði þá haldið að út frá öllum jafnræðissjónarmiðum og sanngirnissjónarmiðum væri eðlilegt að fella þetta fólk líka undir það að geta notið réttar til leiðréttingar. Enn er þó ekkert gert til að bæta úr þessum ágalla.

Virðulegi forseti. Það er líka alveg sérstakt rannsóknarefni hvers vegna í ósköpunum ríkisstjórnin þegir í hel rannsókn Hagstofunnar á skuldastöðu heimilanna. Hvað er þar að finna sem má ekki koma fyrir almenningssjónir? Hvers vegna er ekki upplýst um niðurstöður af rannsókn Hagstofunnar á skuldastöðu heimilanna? Er það vegna þess að forsendubresturinn er horfinn eins og ýmsar hagtölur benda til, eins og niðurstaða Seðlabankans um daginn benti til, að eignaaukning í húsnæði sé mun meiri en sem nemur verðfallinu hjá langflestum? Er það vegna þess að við blasir sú staðreynd að þessi aðgerð muni að yfirgnæfandi leyti nýtast þeim sem ekki þekkja skuldavandann nema af afspurn en muni hins vegar skilja þá áfram eftir í alvarlegum skuldavanda sem eru nú þegar í honum?

Hafi menn efast um að fólk sem nú er í kviksyndi skuldavanda verði þar áfram eftir aðgerðir þessarar ríkisstjórnar dugar bara að sjá hvernig efndirnar hafa verið á skýrum fyrirheitum um úrlausn fyrir leigjendur og búseturéttarhafa. Þær eru engar. Hvað halda menn þá að muni koma til úrlausnar fyrir þá sem verða í skuldavanda þegar búið er að eyða 80 milljörðunum í þá sem ríkisstjórnin hefur flokkað sem sérútvalda sauði sem fá að njóta heimsendingar á peningum? Það verður auðvitað ekkert aflögu fyrir þá sem áfram verða í skuldavanda eftir þessa aðgerð.

Það er mjög undarlegt að svo rík áhersla skuli vera lögð á það að keyra þessa breytingu í gegn á ofurhraða til að hægt sé að birta fólki niðurstöðu leiðréttingarinnar löngu áður en niðurstöður liggja fyrir úr greiningu Hagstofunnar.

Má ég rifja upp með þingheimi hvernig hæstv. forsætisráðherra talaði um þær fordæmalausu rannsóknarheimildir sem við samþykktum hér að veita Hagstofunni í fyrrahaust? Til hvers? Jú, til að hægt væri að leggja mat á forsendubrestinn, til að tryggja að vel yrði farið með almannafé í leiðréttingunni og til að tryggja að aðstoðin nýttist þeim sem raunverulega væru í vanda.

Af hverju voru gerðar út þessa rannsóknarherdeildir Hagstofunnar með fordæmalausar heimildir til að rannsaka fjárhagsmálefni fólks ef þessi ríkisstjórn ætlar ekkert að gera með þær niðurstöður? Nú væri þvert á móti ástæða til að staldra við í ljósi nýrra hagtalna, í ljósi þess að væntanlega er hægt að fá upplýsingar frá Hagstofunni vegna þess að hún hefur nú haft ár til að safna gögnum og vegna þess, eins og kom fram í nefndinni, að það er ekki búið að semja við fjármálafyrirtækin og lífeyrissjóðina um greiðslur inn á lánin. Það er svolítið sérstakt að byrja á að opna gluggann gagnvart almenningi, lofa fólki gulli og grænum skógum, en vera ekki búinn að útfæra hvernig eigi að koma peningunum til skila með lögmætum hætti til þeirra sem eiga að fá greiðslur inn á lánin.

Hví segi ég: Með lögmætum hætti? Jú, vegna þess að komið hefur fram í umræðunni í nefndinni að Eftirlitsstofnun EFTA fylgist náið með framkvæmdinni vegna þess að það er bullandi hætta á að í þessari millifærslu felist ólögmætur ríkisstyrkur til banka. Mjög margt bendir til að það verði þannig þegar öllu er á botninn hvolft.

Í minnihlutaálitinu nefni ég þrjú dæmi, í fyrsta lagi þá staðreynd að í 1. mgr. 11. gr. laganna er beinlínis gert ráð fyrir því að leiðréttingarfjárhæð verði fyrst af öllu varið til að greiða inn á kröfur sem hafa glatað veðtryggingu. Hvað er það? Jú, það er það sem eftir stendur þegar húsið manns hefur verið selt á nauðungarsölu. Setjum sem svo að ég eigi íbúð, hún hafi selst á 16 milljónir, lánið er 20 og eftir standa 4 milljónir. Þær 4 milljónir eru sem sagt krafa sem glatað hefur veðtryggingu. Hún er í dag einskis virði vegna þess að við settum blessunarlega á síðasta kjörtímabili lög um greiðsluaðlögun sem gerir fólki kleift að losna undan ósanngjörnum skuldum, öfugt við það sem gerðist hjá kyrrstöðuríkisstjórn þessara flokka í fortíðinni. Þar fyrir utan styttum við fyrningartíma í gjaldþrotum niður í tvö ár. Krafa af þessum toga sem ekki er veð fyrir er verðlaus í samfélagi dagsins í dag vegna þess að fólki er í lófa lagið að fara í greiðsluaðlögun og losna við hana, fá hana færða niður að því sem það ræður við að borga. En hvað gerist þá? Birtist ekki björgunarherdeild bankakerfisins í formi þessarar ríkisstjórnar og lofar bönkum með lögum að borga upp þessa kröfu sem er orðin verðlaus! Fyrst af öllu á að borga upp verðlausa kröfu. Hvað er það annað en ríkisstyrkur? Bankagjöf. Ég á erfitt með að sjá annað en að sú greiðsla ein og sér feli í sér gjöf og gjafagerning til bankanna.

Í annan stað sömdum við á síðasta kjörtímabili við banka og lífeyrissjóði um að þola það að afborganir af íbúðalánum yrðu lækkaðar og þær fluttar til í tíma. Fólki bauðst að nýta sér greiðslujöfnunarvísitölu. Sumir afþökkuðu að fá afborganir sínar lækkaðar með henni, en meiri hluti þjóðarinnar naut hennar. Afborganirnar lækkuðu næstum því um 20% þegar lækkunin var sem mest, en peningarnir fóru þá inn á sérstakan jöfnunarreikning. Kerfið virkaði þannig að þegar atvinnuástand batnaði og kaupmáttur ykist yrði byrjað að borga af þessum jöfnunarreikningi. Það er ekki enn komið að því.

Í því samkomulagi sem bankarnir öxluðu og skrifuðu undir fólst líka að þeir féllust á að það sem safnaðist þarna upp og yrði ekki greitt á þremur árum eftir upprunalegan lánstíma yrði afskrifað ríkinu að kostnaðarlausu. Þeir skrifuðu upp á að þurfa að tapa þessum peningum undir ákveðnum kringumstæðum. Vissulega þarf efnahagsástand þá að vera lengi dapurlegt til að á það reyni en þeir skrifuðu upp á það.

Birtist þá aftur bankabjörgunarherdeildin mikla, ríkisstjórnin, og ákvað að fylla vasa bankanna af peningum sem þeir voru sjálfir búnir að samþykkja að fá ekki fyrr en eftir langan tíma og jafnvel tapa. Það var enn önnur flýtigreiðsla á hálftöpuðu fé eða í það minnsta frestuðu fé. Hvernig á þá að meta þessa fyrirgreiðslu, þessa greiðvikni ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar við bankakerfið? Hvar eru mörk ólögmæts ríkisstuðnings og eðlilegs endurgjalds í þessu dæmi? Ég spyr og ég held að mjög margir muni eiga erfitt með að sjá nauðsynina í að borga annars vegar tapaðar kröfur og hins vegar kröfur sem menn hafa fallist á að fá ekki greiddar fyrr en eftir dúk og disk og jafnvel tapa. Það eru ekki eðlileg viðskipti og króna á móti krónu er ekki raunverð í þeim viðskiptum.

Virðulegi forseti. Þriðja dæmið sem ég tek í minnihlutaálitinu af flækjustiginu í verðlagningu á þessum uppgreiðslum er þegar lífeyrissjóðir fá greidda peninga vegna þess að ríkisstjórnin ákvað að miða þessa úrlausn ekki við þá sem eru í raunverulegum skuldavanda heldur láta alla, jafnvel þótt þeir væru með lítil lán á húseignum sínum og hefðu hagnast verulega á fasteignakaupum, njóta lækkunarinnar. Þá blasir við að lífeyrissjóðir munu í ýmsum tilvikum missa mjög verðmæta skuldara og verðmætar eignir sem eru lán í fullum skilum á 1. veðrétti, kannski 10–20% veðsetningarhlutfall á öruggum eignum, og ríkið mun koma og lækka þessar skuldir eða greiða þær upp.

Ég ætla að taka dæmi sem ég tók hér í vor af manninum sem gaf sig fram við mig í sundlauginni. Hann keypti sér hús á Seltjarnarnesi árið 1997 fyrir 14 milljónir og tók lífeyrissjóðslán. Jafnvel þótt hann hefði ekkert borgað af láninu allan þennan tíma stæði það ekki hærra en í 25 millj. kr. Húsið stendur í 75. Það er allt hið skelfilega tjón sem hann hefur orðið fyrir af misgenginu. Hann hefur grætt gríðarlega á hækkun fasteignaverðs og er ósköp ánægður með það en skilur í sjálfu sér ekkert hvaða forsendubrestur það er sem framsóknarmenn og sjálfstæðismenn vilja ólmir bæta honum. Lífeyrissjóðurinn sem lánaði honum hefur engan hag af því að fá þennan pening greiddan upp. Ef hann á að þurfa að þola það að fá hann greiddan þarf hann væntanlega að fá greitt álag ef eitthvert vit á að vera í galskapnum. Það verður þrautin þyngri að finna formúlu fyrir þessu greiðslumunstri öllu saman sem stenst eðlileg viðmið um áhættu í bankaviðskiptum, eðlileg viðmið um endurgjald fyrir þá endalausu greiðviknistúra sem þessi ríkisstjórn tekur í þágu bankakerfisins.

Virðulegi forseti. Ég fagna því að við í efnahags- og viðskiptanefnd munum á næstunni fara nákvæmlega yfir framkvæmd þessarar niðurfellingar, hvar hún stendur og hvernig hún gengur. Ég mun þar ganga ríkt eftir því að fá loksins einhver svör frá hinum verklausu ráðherrum um hvað á nákvæmlega að gera fyrir leigufélög til að lækka skuldastöðu þeirra með sama hætti og þeir njóta núna sem fá sína skuldastöðu lækkaða vegna þess að þeir eiga sitt eigið húsnæði og eru með verðtryggð lán á því.

Ég mun líka ganga eftir því að fá svör um hvað eigi að gera fyrir búseturéttarhafa sem eru í algjörlega sambærilegri stöðu við þá sem búa í eigin húsnæði.

Það verður líka mjög mikilvægt að fá skýrt fram hjá Hagstofunni hvernig myndin um misskiptinguna, sem þessi aðgerð hefur í för með sér, lítur nákvæmlega út. Eitt er ljóst, hún gagnast ekki þeim sem eru í mestum skuldavanda. Fénu sem aflað er á forsendum þess að verið sé að leysa úr skuldavanda verður varið í óskyld verkefni, sem er í sjálfu sér almenn peningadreifing úr ríkissjóði, og eftir stendur skuldavandinn óleystur.

Ég minni að lokum á það sem ég rakti í upphafi. Þessi lagabreyting eyðir ekki þeirri staðreynd að þegar kemur að frádrætti frá niðurfellingunni vegna aðgerða á síðasta kjörtímabili af hálfu fjármálakerfisins er jafnræði ekki tryggt. Þeir sem fengu sérstaka úrlausn í fjármálakerfinu munu njóta hennar til fulls og fá fulla niðurfellingu á kostnað ríkissjóðs. Það er eftir sem áður hin bitra staðreynd og hélt ég þó ekki að hægt væri að auka á ójafnræðið og óréttlætið sem í þessari aðgerð felst.