144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[15:58]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það sé út af fyrir sig óþarfi að ég og hv. þingmaður séum eitthvað að togast á um það hvort þetta eru 6–7 þúsund eða 7–9 þúsund, ég held að það megi einu gilda, það megi þess vegna liggja á því bili sem hv. þingmaður nefnir. Vandinn er hins vegar sá að á sama tíma er verið að hækka nauðsynjar eins og húshitun, matarverð og aðra slíka hluti sem koma til frádráttar hjá þessum sömu heimilum og er raunar varanlegur kostnaður inn í alla framtíð á meðan húsnæðislánin eru þó sem betur fer yfirleitt tímabundin útgjöld hvers heimilis.

Það sem ég held að þurfi síðan sérstaklega að ræða í tengslum við þetta tiltekna frumvarp sem þingmaðurinn nefnir, sem er aðeins leiðrétting á frumvarpinu sem lagt var fram vegna þess að það var ekki betur til þess vandað, er að verið er að draga meira af fólki. Hér er verið að finna fleiri sem fóru í gegnum 110% skuldaleiðréttingu og láta þá sitja eftir með sárt ennið og fá ekkert í niðurfærslu, þ.e. aðallega þá sem voru í Arion banka, ef ég kann þetta rétt. Þeir sem fengu slíka niðurfærslu niður í 110% af eignum sínum voru iðulega þau heimili sem áttu erfiðast með að ná endum saman, voru með mestar húsnæðisskuldir, höfðu keypt á verstum tíma, áttu erfiðast með að standa undir afborgunum.

Ég held að ég muni eftir mjög mörgum þingmönnum Framsóknarflokksins, og ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi verið í þeim hópi, sem hafa talað um að ekki hafi verið gert nóg fyrir fólkið sem fór í gegnum 110%-leiðina, það hafi aftur verið komið í vanda og brýna þörf vegna þess að aðgerðir ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir þetta fólk hafi hvergi verið nærri nóg. Hvernig kemur slíkur málflutningur heim og saman við það að taka þennan hóp síðan sérstaklega út og láta hann ekki njóta neinna aðgerða, þá sem skuldsettastir eru?