144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:02]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er gott að hafa galdramenn hér í salnum og þarna sáum við einn sem er í færum til að hækka matarverð og húshitun, skattlagningu og slíkt um 5 prósentustig, en þó þannig að allir koma betur út. Ég held að þetta séu útreikningar af svipuðum toga og þeir sem sýndu að ríkisstjórnin er svo fjarri tengslum við veruleikann að hún heldur að hver máltíð kosti liðlega 200 kr. og gerir alla þá útreikninga sem hv. þingmaður nefndi út frá slíkum forsendum. Ég held að það sé ekki flókið fyrir venjulegt fólk að svara þeirri spurningu hvort það muni um 5% hækkun á mat og hvort það komi sér ekki illa þegar skuldalækkunin, ef það nýtur hennar, er síðan bara upp á 3,8% að jafnaði eins og hér er.

Ég hef þó mestar áhyggjur af verðtryggingunni, af því að hv. þingmaður kom ekki að því máli í svörum sínum; hættan er sú að hér sé verið að setja fjármuni út sérstaklega til þeirra sem ekki þurfa á að halda, til stóreignafólks og hátekjufólks einmitt þegar við megum ekki við því að fá neina þenslu í kerfið vegna þess að það mun fljótt leiða til verðbólgu. Það er sömuleiðis mikil krafa um að aflétta höftum. Nú þegar Framsóknarflokkurinn hefur ákveðið að bjóða bara upp á verðtryggð lán í landinu og virðist alveg horfinn frá afnámi verðtryggingarinnar er maður auðvitað hræddur um að reikningurinn fyrir þessum útreikningum og hringflutningum verði sá að kostnaðurinn komi í bakið á fólki í sjálfvirkri vísitöluhækkun á lánum (Forseti hringir.) þeirra þótt síðar verði.