144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:34]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Frú forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu, mér sýnist að það geti verið svo að komið sé að lokum hennar. En ég hlýt þá að vekja athygli á því að hér voru bornar fram spurningar og óskað eftir þátttöku stjórnarliða og aðstandenda málsins í því m.a. að fara yfir og færa fram rök og útskýra fyrir okkur tiltekna þætti þessarar aðgerðar, en það hefur látið mjög á sér standa að við fengjum viðbrögð við því.

Ég lýsti sérstaklega eftir því að menn svöruðu hér fyrir hverju það sætti að t.d. leigjendur væru alveg skildir eftir, að búseturéttarhafar, húsnæðissamvinnufélögin eða félagsleg leigufélög fái ekki neina niðurfærslu á lánum sem þar hvíla á. Eru þau lán þó í mörgum tilvikum meðhöndluð algerlega eins og um prívatlán einstaklings væri að ræða, þ.e. þeim er haldið aðgreindum, viðkomandi borgar af þeim, í sumum tilvikum algerlega beint af tilteknu sértæku láni, í öðrum tilvikum reikningslega af tilteknu láni og fær vaxtabætur á móti, en samt fær þessi hópur ekki niðurfærslu. Hver eru rökin fyrir því?

Má ég minna á að þegar þetta var til umræðu hér á síðastliðnu vori, frú forseti, þá vísuðu stjórnarliðar gjarnan í að það yrði skoðað að koma til móts við þessa hópa en það yrði bara gert sérstaklega. Það var gjarnan vísað á hæstv. félagsmálaráðherra í þeim efnum. Ég var svo heppinn að hæstv. félagsmálaráðherra var í þingsalnum þegar ég flutti ræðu mína og ég bað hana að koma upp og segja okkur hvenær og hvernig stæði þá til að jafna stöðu leigjenda sem sætu uppi með forsendubrest sinn algerlega óbættan, fólk sem bjó í leiguhúsnæði 2008 þegar verðbólgan fór af stað, borgaði verðtryggða leigu, t.d. viðskiptavinir Félagsbústaða hér í Reykjavík. Mér er ekki kunnugt um annað en að leigan hafi hækkað í samræmi við vísitölu upp á hvern einasta mánuð þannig að verðbólgukúfurinn gekk beint út í húsaleiguna hjá þessum hópi til dæmis. Hvar leiðréttingin gagnvart þeim hópi?

Erum við í alvöru að tala hér um þá sem urðu fyrir forsendubresti? Það er hér bundið við þá sem eiga húsnæði sitt en ekki þá sem bera húsnæðiskostnað sem tók á sig alveg sambærilegan forsendubrest. Munurinn er sá að þeir eiga enga von um að það komi nokkurn tímann til baka í hækkuðu fasteignaverði eða einhverju slíku en það getur þó hinn hópurinn átt sem getur aftur myndað eign ef þróun íbúðaverðs verður hagstæð.

Nei. Hæstv. félagsmálaráðherra, sem var hér í salnum við umræðuna og á hér mál á dagskrá á eftir, kaus að koma ekki upp til að upplýsa um svo mikið sem eitt atriði í sambandi við hvar vinna í þessum efnum væri á vegi stödd. Við höfum heyrt af alveg ótrúlegum fjölda nefnda sem vinnur í þessum húsnæðismálum og hefur gert það undanfarin missiri. Gott og vel, en við spyrjum um efndir þegar við erum komin fram á síðustu dagana áður en ýtt verður á takkann og reikniverkinu hleypt af stað. Ég held að það verði ekki svo auðveldlega snúið aftur eftir það, þegar fólk er búið að sjá á prenti fyrirheit um fjármuni til lækkunar höfuðstóls lána sinna.

Ég hefði viljað heyra hv. stjórnarliða, aðstandendur málsins, tjá sig um jöfnunarreikninginn vegna greiðslujöfnunar. Hver eru rökin fyrir því að hann sé tekinn með þessum hætti fram fyrir og gerður upp núna áður en kemur til eiginlegrar lækkunar höfuðstóls? Af hverju má hann ekki standa eftirstæður sem hluti lánsins á þeim kjörum sem búið var að semja um og ganga frá? Ég held að allar fjármálastofnanir hafi fallist á að það sem safnaðist upp á jöfnunarreikningi vegna greiðslujöfnunar stæði aftan við lánið og kæmi ekki til greiðslu á því nema að breyttu breytanda eftir því hvernig greiðslujöfnunarvísitalan þróaðist, fyrr en lánið sem slíkt hefði verið greitt upp og þó þannig að aldrei yrði bætt við nema þremur árum með óbreyttum afborgunarskilmálum upphaflega lánssamningsins. Ef það dygði ekki til að jafna upp reikninginn þá afskrifaðist restin.

Nú eru, sem betur fer, vissulega litlar líkur á því að það gerist að greiðslujöfnunarreikningurinn afskrifist, en sá möguleiki er fyrir hendi, og hvers vegna þá ekki að leyfa því að standa svo? Vegna þess að munurinn er sá að ef greiðslujöfnunarreikningurinn er ekki dreginn frá er lækkun höfuðstólsins meiri og létting greiðslubyrðinnar meiri strax á fyrstu árum eftir aðgerðina, í staðinn fyrir að jafna upp reikninginn sem ekki átti að koma til borgunar fyrr en í lokin. Þá sjá það allir menn. Segjum að það sé hálf milljón, 800 þús., undir 1 milljón kannski, inni á greiðslujöfnunarreikningi hjá einhverjum, þá munar um að það sé dregið frá hinni reiknuðu leiðréttingarfjárhæð og lækkun höfuðstólsins og sambærileg lækkun afborgana verður þá minni sem því nemur. Það geta verið nokkur þúsund kr. á mánuði sem greiðslubyrðin lækkar minna vegna þessa. Ég sé bara enga ástæðu til að gera þetta. Það má deila um marga af frádráttarliðunum.

Mér finnst það vera augljóst og þess vegna styð ég þá breytingartillögu sem hv. þm. Bjarkey Gunnarsdóttir hefur lagt fram um, þ.e. að þessi málsliður falli einfaldlega brott úr 11. gr. laganna. Ég sé bara engin rök fyrir því að gera þetta, þarna er einhver óskapleg góðvild í garð bankanna. Er þetta þá orðin einhvers konar lánahreinsun en ekki lánaleiðrétting, þ.e. lánahreinsun á forsendum bankakerfisins? Jú, það er auðvitað voðalega fínt að sitja í banka og fá hreint borð; allir gjaldfallnir gjalddagar, vextir og dráttarvextir, vextir af því og verðbætur af því, allt saman þurrkað upp, greiðslujöfnunarreikningurinn kvittaður. Og svo er eitthvað farið að kíkja á höfuðstólinn. Þá er þetta að stærstum hluta lánahreinsun en ekki lánaleiðrétting, a.m.k. í fyrstu umferð. Lánahreinsun á forsendum bankakerfisins.

Ef ég man rétt þá standa eitthvað á annan tug milljarða kr. á greiðslujöfnunarreikningnum. Okkur gekk að vísu illa að fá nákvæmar upplýsingar um það í vor, en það eru fjárhæðir af þeirri stærðargráðu, þar af einir 6, 7 milljarðar hjá Íbúðalánasjóði einum, að ég hygg.

Fyrsta niðurfærslan má ekki, að frátöldum kostnaði og væntanlega vegna vaxtanna á árinu sem í hönd fer, kosta nema 20 milljarða. Hvað verður þá eftir til eiginlegrar lækkunar höfuðstólsins af fyrstu greiðslunni? Það verður ekki mikið. Vissulega verður aðgerðin framkvæmd þannig að fjögurra ára skammturinn verður tekinn frá, en ég held að fyrstu 20 milljarðarnir fari sennilega að mestu leyti í þessa lánahreinsun. Mér sýnist allt stefna í það. Eru allir stjórnarliðar bara sáttir við þetta og sannfærðir um að þetta eigi að vera svona eða að þetta þurfi að vera svona? Eða að draga sérstöku vaxtaniðurfærsluna frá? Af hverju? Ákveðið var að styðja fólk með viðbótarfjárveitingum í sérstaka vaxtaniðurfærslu. Af hverju er það dregið frá lækkun höfuðstólsins? Er það vegna þess að það tókst að pína bankana og lífeyrissjóðina örlítið til að leggja af mörkum í þá aðgerð? Reyndar stóðu bankarnir sig betur. Það var skárra að eiga við þá þegar upp var staðið um að fjármagna sinn þátt af því. Er það þess vegna sem menn eiga að fá það til baka núna óbeint í gegnum það að sú upphæð er dregin frá lækkuninni? Það mætti velta því fyrir sér. Það er dálítið skrýtið að meðhöndla ívilnandi millifærslu eða greiðslu af því tagi sem vaxtabætur eða sérstök vaxtaniðurgreiðsla er og setja hana yfir í allt annað samhengi eins og þetta. Mér finnst það sérkennilegt.

Frú forseti. Ég vildi bara vekja athygli á því að við vorum hér einir þrír, fjórir ræðumenn frá minni hlutanum með margar spurningar í þessari umræðu og fengum sáralítil og eiginlega engin viðbrögð og enga tilburði til svara. Er allur stuðningur við þetta mál að verða gufaður upp? Eru menn orðnir svo bilaðir inni í sér í þessu mikla máli að menn hafa ekki kjark í að fara hér upp í ræðustól og bregðast við málefnalegum athugasemdum og flytja fram rök?