144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

leiðrétting verðtryggðra fasteignaveðlána.

240. mál
[16:49]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni svörin. Ég kom inn á það í fyrra andsvari að það væri svolítið ankannalegt að svara spurningum í andsvari, en það er engu að síður mjög gott að eiga þetta samtal.

Ég er sammála hv. þingmanni um að þessar húsnæðisbætur væru jákvætt skref. Svo hygg ég að háir raunvextir hafi ekki hjálpað til við byggingarkostnað þar sem þeir sem leigja út þurfa að sækja ávöxtun sína í hærra leiguverði, það mun því hjálpa til lengri tíma ef við náum að lækka raunvaxtastig. Ég veit að hv. þingmaður hefur í gegnum tíðina, bæði sem hæstv. ráðherra og þingmaður til margra ára, barist fyrir því að bæta kjör hinna ýmsu hópa og ýmsar aðgerðir geta mögulega verið mótsagnakenndar þannig að þegar verið er að hjálpa og bæta samfélagið lenda einhverjir út undan og þurfa sérúrræði. Það er allur gangur á því.

Ég hef skynjað, get ég sagt, að hv. þingmaður hefur orðið eilítið fráhverfari þessum viðbótaraðgerðum, leiðréttingaraðgerðinni, stóru aðgerðinni, ef ég leyfi mér að nota það orð, og ég orðaði það svo í ræðu áðan að við hefðum tekið við þar sem fyrri ríkisstjórn skildi við og taldi jafnvel að nóg væri gert.

Ég vil spyrja hv. þingmann hvort sú skynjun mín sé rétt að hann sé orðinn fráhverfari þessu og af hverju það sé, ef hann getur svarað því á einfaldan hátt.