144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

sérhæfð þjónustumiðstöð á sviði heilbrigðis- og félagsþjónustu.

257. mál
[17:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir greinargerðina fyrir málinu. Ég held að út af fyrir sig sé sjálfsagt að skoða það með jákvæðum huga á hverjum tíma hvort breyta megi skipulagi í ríkisrekstrinum og hugsanlega nýta betur það sem við höfum, bæði starfsfólk og fjármuni, því að það er jú verkefni okkar að ná sem allra bestri þjónustu fyrir þá sem á henni þurfa að halda, fyrir þá sem þurfa á þjónustu velferðarkerfisins að halda.

Ég verð þó að segja að almennt hefur mér þótt gæta tilhneigingar til ofmats á því hvaða hagræðingu megi ná fram í rekstri með sameiningu stofnana. Ég held að engar sönnur hafi verið færðar á það að sameiningu stofnana fylgi rekstrarhagræði eða fjárhagslegt hagræði. Ef menn skoða sögu sameiningar stofnana og úttektir Ríkisendurskoðunar á því er niðurstaðan af þeim úttektum hið gagnstæða. Það að sameina stofnanir sparar ekki peninga, það kostar peninga. Kostnaður við sameininguna fellur til á einhverjum árum. Umfang starfseminnar vex, ítrekaðar úttektir Ríkisendurskoðunar á sameiningu fjölmargra stofnana leiða það í ljós.

Nú kann að vera að yfir lengra árabil eða í einhverri langri framtíð náist eitthvert rekstrarhagræði með þessu, en reglan er hins vegar sú að sameining stofnana leiðir til aukins kostnaðar, að minnsta kosti um nokkurra ára skeið eftir að í slíka sameiningu er ráðist. Þetta er því ekki tæki til að ná fram rekstrarhagræðingu nema sérstakar aðstæður séu til þess eða einhver sérstök rök fyrir því. Það kann auðvitað að vera í þessu máli. Það er sjálfsagt að þingnefndin skoði hvort slík rök séu fyrir hendi. Ég vara almennt við því að menn reyni að nota sameiningu stofnana sem einhverja töfralausn í rekstrarhagræði.

Rekstrarhagræði er náttúrlega ekki hið eina, það getur verið faglegur ávinningur af því að sameina krafta á einum stað sem hafa verið á fleiri en einum. Ég held að það sé kannski sá liður sem helst sé líklegur til þess að fela í sér ávinning ef þessar þrjár stofnanir yrðu sameinaðar, þ.e. að það góða starfsfólk sem vinnur á þessum þremur stöðum gæti á einum stað og í samvinnu náð betri árangri en í þremur stofnunum. Það er þó auðvitað óvíst og fer eftir því hvernig samvinnu á milli þeirra er háttað núna og hvernig skipulaginu er fyrir komið eftir breytingarnar. Full ástæða er fyrir nefndina að fara efnislega vel yfir það.

Það sem ég hef þó kannski sérstakar áhyggjur af í málinu er að Þjónustu- og þekkingarmiðstöð blindra og sjónskertra, sem er ein af þessum þremur stofnunum, var sett á laggirnar eftir hrun. Ég held að ég fari rétt með að það hafi verið eina útgjaldamálið og eina jákvæða skrefið sem þingið steig veturinn eftir hrun, veturinn 2008–2009. Það var mjög jákvætt skref, geysilega vel heppnuð aðgerð, geysilega vel heppnuð stofnun og mikilvægar úrbætur á brýnni þörf, ekki síst barna sem voru afskipt og án stuðnings og þjónustu; blind og sjónskert börn út um skólakerfið víðs vegar um landið höfðu eiginlega bara týnst í kerfinu þegar málaflokkurinn var fluttur. Sér í lagi vantaði miðlæga þekkingu og miðlæga þjónustu fyrir þennan hóp. Ég er ekki alveg viss um að búið sé að bæta nægilega vel úr þeim mikla skorti og þeirri þörf sem þar var uppsöfnuð til að tímabært sé orðið að slá þessu saman við aðra þjónustu. Ef gera á það er að minnsta kosti mikilvægt að þær stofnanir sem til stendur að sameina Þjónustu- og þekkingarmiðstöð blindra og sjónskertra hafi með sér og frá ráðherranum nægilega fjármuni til að hægt sé að tryggja góða þjónustu við alla hópana sem hér heyra undir.

Ég þekki ekki nægilega vel til á Greiningarstöðinni og heldur ekki á Heyrnar- og talmeinastöðinni, en ég hef vissar áhyggjur af því að þar hafi skort fjármuni til að veita þá þjónustu sem við viljum veita. Til að þessi sameinaða stofnun geti veitt góða þjónustu öllum þeim sem til hennar þurfa að leita þarf, held ég, meiri fjármuni í sameinaða stofnun en verið er að veita í dag í þessar þrjár stofnanir hverja í sínu lagi. Annars væri ástæða til að hafa áhyggjur af því að góð þjónustustofnun, gríðarlega mikilvægt úrræði fyrir blinda og sjónskerta, ekki síst blind og sjónskert börn, yrði ekki betur komin heldur þvert á móti teflt í skort og vöntun sem því miður hefur verið einkenni svo víða í velferðarsamfélagi okkar.

Ég árétta að þetta eru sjónarmið sem ég tel mikilvægt að farið sé yfir í nefndinni og full ástæða til þess fyrir ráðherrann að skoða möguleika á breytingum á skipulagi þjónustu í sínum málaflokki. Fyrir því geta verið góð málefnaleg rök og nefndin metur hvort þau eru fyrir hendi. Ég legg fyrst og fremst áherslu á það og veit að notendasamtökin hafa verið þessu frekar hliðholl og ég held að á endanum sé það fyrst og síðast spurning um afstöðu notendanna og samtaka þeirra. Telja þau að þjónustunni sé betur fyrir komið með þessum breytingum eða án þessara breytinga? Ég treysti því að nefndin taki mið af þeim sjónarmiðum sem koma fram, hvort sem það er frá samtökum blindra eða heyrnarlausra eða öðrum hagsmunasamtökum notenda sem eiga undir þessar stofnanir að sækja. Fyrst og fremst hljótum við að vera að vinna að breytingum fyrir fólkið sem nýtur þjónustunnar en ekki fyrir aðra.