144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

um fundarstjórn.

[17:37]
Horfa

Forseti (Steingrímur J. Sigfússon):

Forseti vill upplýsa, áður en fleiri fá orðið um fundarstjórn forseta, að hann rekur að sjálfsögðu minni til þess að ítrekað hefur verið óskað eftir nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra við þessa umræðu. Sá sem hér stýrir fundi hefur að minnsta kosti í tvígang fengið slíkar beiðnir á fyrri dögum þessarar umræðu. Þeim skilaboðum hefur jafnan verið komið áleiðis til heilbrigðisráðherra að nærveru hans væri óskað, en í öðru tilvikinu mun hann reyndar hafa verið staddur erlendis.

Forseta rekur einnig minni til að hafa heyrt að til stæði að hæstv. heilbrigðisráðherra yrði að einhverju leyti viðstaddur framhald þessarar umræðu. Forseti mun tafarlaust gera gangskör að því að afla upplýsinga um það hvort hæstv. heilbrigðisráðherra er væntanlegur og að minnsta kosti ekki halda umræðunni lengi áfram fyrr en upplýsingar liggja fyrir um það.