144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[17:57]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Það er ánægjulegt að hæstv. heilbrigðisráðherra ætlar að heiðra okkur með nærveru sinni við þessa umræðu þótt aðeins síðar verði. Ég fæ þá kannski tækifæri til þess í minni síðari ræðu að eiga við hann orðastað.

Herra forseti. Er klukkan í borðinu biluð eða fæ ég ótakmarkaðan tíma? Það væri ekki ónýtt.

Eitt af því sem ég vil gjarnan ræða við hæstv. ráðherra er hvar áfengismálum er fyrir komið í stjórnkerfinu. Ég átti þess kost að sitja á stóli heilbrigðisráðherra í tæplega ár og ég verð að segja að mér þótti Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins ekki rétt fyrir komið í fjármálaráðuneytinu. Ég tel nefnilega að áfengismálin í heild eigi að vera í heilbrigðisráðuneyti, nú velferðarráðuneyti, eins og er víða annars staðar. Ég reyndi af litlum mætti að fá því framgengt, ræddi það meðal annars í þingsal á sínum tíma, en sú tillaga hlaut ekki undirtektir. Ástæðan fyrir því að ég tel áfengismálin, Áfengis- og tóbaksverslun ríkisins þess vegna og þá stefnu sem þar er hverju sinni, eiga heima í heilbrigðisráðuneytinu er að þetta snýst fyrst og fremst um lýðheilsu. Ég ætla að koma að því aðeins á eftir.

Við erum að ræða frumvarp til laga um breytingu á áfengislögum og hv. flutningsmenn og þeir aðrir sem ég hef heyrt tala halda því blákalt fram að þetta frumvarp fjalli að einhverju leyti um það sem þeir kalla frelsi, en frumvarpið er um að leggja einkasölu Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins af og gefa smásölu á áfengi frjálsa, að ákveðnu marki þó eins og þar segir og ég mun koma að á eftir.

Í greinargerð með frumvarpinu er leitað skýringa á því af hverju áfengissala er í höndum hins opinbera. Það er leitað í söguskýringu til bannáranna og sagt að eftir lok þeirra hafi þeirrar tilhneigingar gætt meðal stjórnmálamanna að setja lög sem á einn eða annan hátt hafi falið í sér verslunareinokun, annaðhvort beint með veitingu einkaleyfa eða óbeint með verslunarhöftum. Þarna er vísað til einkaleyfis á síldarsölu, sölu viðtækja og annarra slíkra hátta. Þetta er gömul saga og á ekki heima sem rök í dag með tillögu um að færa brennivín í búðir.

Í greinargerðinni er efst á bls. 6 í frumvarpsskjalinu vísað til margháttaðra röksemda gegn frumvarpinu sem nú er flutt í sjöunda sinn. Þar reyna flutningsmenn að hrekja þessar mótbárur hverjar á fætur annarra og telja síðan upp ýmsa kosti sem þeir sjá við að setja brennivín í búðir, m.a. að því fylgi þó nokkur kostnaður að reka sérstakt dreifikerfi fyrir áfengi um landið allt.

Síðan segir, með leyfi forseta:

„Flestar matvörukeðjur reka eigin dreifikerfi nú þegar og ekki verður séð að áfengi sé þess eðlis að það passi illa inn í þau kerfi.“

Þarna er sem sagt verið að tala um kerfi verslunarrekstrarins en ekki eðli þeirrar vöru sem við erum hér að fjalla um. Áfengi er ekki venjuleg verslunarvara, herra forseti.

Í næstu málsgrein segir, aftur með leyfi forseta:

„Ætla má að margir þeirra kaupmanna sem selja matvöru nú hafi áhuga á að selja áfengi.“

Þetta kemur í framhaldi af því að flestar matvörukeðjur reki nú eigin dreifikerfi og að áfengi geti passað ágætlega inn í það.

Hér liggur hundurinn grafinn, eða á ég kannski að segja úlfurinn? Í mínum huga er þetta frumvarp úlfur í sauðargæru. Það snýst nefnilega ekki um frelsi, eins og hér er látið í veðri vaka, heldur um gróða fyrir stóru matvörukeðjurnar sem Sjálfstæðisflokknum er ávallt einkar hugleikinn. Frelsishjalið er átylla í mínum huga og ekki annað. Ef þetta á að vera svona frjálst, af hverju eru þá í 21. gr. settar takmarkanir við frelsinu? Af hverju er lagt bann við því að menn geti keypt sér bjór með samlokunni eða pulsunni en aftur á móti leyft að bjóða hvítvín og vodka í mjólkurkælinum? Hvað er að pulsunni og samlokunni ef jógúrtin er í lagi við hliðina á vodkanu?

Hér stendur ekki steinn yfir steini, herra forseti. Flutningsmenn hafa leyft sér að ýta frá sem léttvægum rökum þeirra sem benda á að áfengi er ekki venjuleg verslunarvara og að sú stefna sem fylgt er við sölu og dreifingu þess, ekki aðeins hér á landi heldur alls staðar í heiminum, hefur mikil áhrif á heilsufar þjóðarinnar allrar, á það sem er kallað lýðheilsa sem er fallegt orð og skýrt. Það er auðskiljanlegt.

Furðulegt nokk kom hið fallega orð lýðheilsa ekki inn í íslenskt mál fyrr en á tíunda áratug síðustu aldar, rétt undir síðustu aldamót.

Hvað er svo lýðheilsa? Þetta hugtak er notað yfir almennt heilsufar þjóðfélagshópa eða þjóðar og er þá átt við líkamlega, andlega og félagslega heilsu fólks. Um þetta má nánar lesa á lydheilsa.is.

Þetta frumvarp fjallar í mínum huga um lýðheilsu og stefnu stjórnvalda í þeim efnum, lýðheilsu sem grundvallast á samfélagslegri og sameiginlegri ábyrgð á því að bæta heilbrigði, lengja líf og auka lífsgæði fólks í víðum skilningi.

Hv. þm. Jóhanna María Sigmundsdóttir rakti fyrr í umræðunni í greinargóðri ræðu hvernig íslensk stjórnvöld og norræn hafa nýlega sett sér og undirritað stefnu í áfengismálum, stefnu sem miðar að því að draga úr skaðlegum áhrifum af neyslu áfengis á lýðheilsuna. Hv. þingmaður og fleiri sem hér hafa talað hafa rakið hvernig það frumvarp sem hér er á dagskrá gengur þvert gegn þeirri stefnu, stefnu sem er byggð á reynslu ekki bara þjóðarinnar heldur þjóðanna og þekkingu á réttu verkfærunum og þeim árangri sem fæst í lýðheilsumálum með því að beita þeim.

Við skulum skoða það aðeins nánar.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin gefur árlega út yfirlit yfir stöðu áfengismála í 194 aðildarlöndum sínum. Þeirra á meðal er Ísland. Í nýjustu skýrslunni sem kom út í maí sl. kemur fram að á árinu 2012 — þetta eru ekki alltaf nýjustu tölur hjá þeim — hafi orðið 3,3 milljónir dauðsfalla vegna ofneyslu áfengis í heiminum. Í skýrslunni er bent á að áfengisneysla veldur ekki aðeins fíkn, eins og menn vita, og dauðsföllum heldur eykur hún einnig líkur á því að fólk fái eina 200 sjúkdóma sem þar eru taldir upp, þeirra á meðal skorpulifur, og gerir menn einnig veikari fyrir smitsjúkdómum, m.a. berklum og lungnabólgu. Þá er ótalið að ofneysla áfengis leiðir af sér ofbeldi og meiðsli til líkama og sálar.

Í þessari skýrslu eru margháttaðar tölfræðilegar upplýsingar og þar er birt á sérstöku stöðuskjali yfirlit yfir stöðu mála í hverju landi fyrir sig á einni blaðsíðu af stærðinni A4. Það kemur fram í þessari skýrslu að í öllum heiminum neyta þeir sem eru 15 ára og eldri að jafnaði 6,2 lítra af hreinum vínanda á ári. Evrópubúar eiga metið í þessum efnum og drekka um 11 lítra af áfengi á mann að meðaltali á ári hverju miðað við íbúa yfir 15 ára aldri.

Hvernig er árangurinn metinn hjá Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni? Hann er metinn í því hversu mikið er drukkið í hverju landi. Það er líka metið út frá tíðni dauðsfalla af völdum skorpulifrar sem rekja má til áfengisneyslu. Það er metið með tíðni dauðsfalla í umferðinni sem rekja má til áfengisneyslu, með tilliti til drykkju ungs fólks o.fl.

Það er forvitnilegt að skoða þessa skýrslu, herra forseti, og stöðu Íslands að þessu leyti. Eins og ég sagði áðan neyta Evrópumenn um 11 lítra af áfengi á ári. Á Íslandi er heildarneysla 15 ára og eldri 7,1 lítri að jafnaði, tæplega 10 lítrar hjá körlum og rúmlega 4 lítrar hjá konum. Þetta telst tiltölulega gott miðað við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum, að ekki sé talað um Rússland þar sem neyslan er yfir 15 lítrar á mann á ári.

Tíðni dauðsfalla af völdum skorpulifrar sem rekja má til áfengisneyslu er tiltölulega lág á Íslandi miðað við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum, ekki nema 46% karla og 65% kvenna, en í Finnlandi er þetta hlutfall 73% og 72%. Þetta er mælikvarði á það hversu mikil áhrif áfengisneysla, ofneysla áfengis í þessu tilfelli, hefur á heilsufar þjóðarinnar, dánartíðni og veikindi.

Þarna erum við komin með 2:0 fyrir Ísland, ekki satt? Þegar við skoðum hins vegar neyslumynstrið kemur í ljós að samkvæmt Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni teljast 24% þeirra sem drekka yfir höfuð á Íslandi til ofdrykkjumanna. Þar erum við á pari við Danmörku og Svíþjóð. Norðmenn eru með lægra hlutfall, um 12%, en Finnar yfir 36%. Þetta eru bara tölur en þær segja býsna mikið þegar verið er að meta áhrif áfengisstefnu á heil þjóðfélög.

Ef við lítum á dauðsföll af völdum umferðarslysa sem rakin eru til áfengisneyslu skorum við því miður hátt þar og hæst Norðurlanda þannig að við erum með um 46,2% af dánum körlum í umferðinni sem má rekja til áfengisneyslu og 65% kvenna. Þetta er talsvert lægra en í aftur til að mynda Finnlandi þar sem hlutfallið er 73% og 72%. Þetta segir okkur að staða okkar á Íslandi er ekki svo slæm miðað við það sem tíðkast annars staðar á Norðurlöndunum.

Hverju má þakka þennan árangur? Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir á að áfengisstefna skipti höfuðmáli þegar til kastanna kemur. Hvaða verkfæri hafa þá stjórnvöld sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur áherslu á að séu notuð til þess að vernda lýðheilsuna? Það er hár áfengiskaupaaldur, takmarkað aðgengi að áfengiskaupum, þ.e. að selja áfengi í sérverslunum og í ríkiseinkasölu, há verðlagning á áfengi, takmarkanir á áfengisauglýsingum, eftirlit með sölu og dreifingu sem og viðurlög og takmarkanir við ölvunarakstri.

Í öllum þessum atriðum skorum við Íslendingar nokkuð hátt. Áfengiskaupaaldurinn hér er 20 ár, annars staðar á Norðurlöndunum er hann 16 og 18 nema hvað Finnar og Norðmenn eru með 20 ára aldurstakmark þegar kemur að því að kaupa sterka drykki. Hér eru í gildi takmarkanir á auglýsingum, þótt þær séu því miður ekki alltaf virtar í ríkisútvarpi allra landsmanna. Hér er ríkiseinkasala, áfengi er dýrt og aðgengi takmarkað við sérverslanir og einkasölu ríkisins.

Niðurstaðan af þessu yfirliti, herra forseti, er að við Íslendingar stöndum bærilega en megum samt sannarlega gera betur. Eigum við nú að fórna þessari stöðu á altari kaupmennskunnar og gróðans? Eða eigum við að viðurkenna staðreyndir og taka undir inngangsorð aðstoðarframkvæmdastjóra Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem segir í inngangi þessarar skýrslu að það sé ekkert pláss fyrir kæruleysi þegar kemur að því að draga úr afleiðingum af ofneyslu áfengis? Við þurfum að viðurkenna í reynd að áfengi er engin venjuleg verslunarvara. Flutningsmenn þessa frumvarps gera það í reynd. Eða af hverju leggja þeir til að 5% í stað 1% af áfengisgjaldinu renni nú í sérstakan lýðheilsusjóð? Er það til þess að auka frelsi í viðskiptum eða er það til þess að sporna gegn þeim áhrifum sem menn vita fyrir fram að þetta frumvarp muni hafa? Og af hverju telja flutningsmenn að það þurfi sérstakan tveggja ára átakstíma eftir að þessi lög taka gildi til þess að fara í sérstakt forvarnaátak?

Herra forseti. Það er vegna þess að áfengi er engin venjuleg verslunarvara.