144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:12]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða og skelegga ræðu og mundi vilja fá mun lengri tíma til að fara yfir marga þætti hennar.

Hún spyr hvort við viljum fórna þeirri góðu stöðu sem við höfum. Ég spyr þá þingmanninn af hverju hún hafi ekki borið þetta saman við Evrópulöndin, t.d. ofdrykkjuna og hvernig ölvunaraksturinn hafi þróast. Þá held ég að hún væri að tala um góða stöðu Evrópu móti slæmri stöðu Norðurlandanna þar sem er mjög rík einokunarverslun.

Vissulega sagði hv. þingmaður að áfengi væri engin venjuleg neysluvara. Þar get ég algjörlega tekið undir með henni en ég er að pæla í hvort hún meini þetta. Ég vil fá að vita það. Það er nauðsynjavara í landinu sem kallast mjólk. Gegnum tíðina hefur þróast kerfi til þess að hafa gott úrval af mjólkurvörum úti um allt land. Það hefur þróast gott dreifikerfi til þess að hafa mjólkina á sama verði um allt land og að það sé sama dreifikerfið.

Með því frumvarpi sem við leggjum hér fram erum við að afnema það að áfengi sé jafn mikil nauðsynjavara og mjólk og að það þurfi að dreifa því á sama verði um allt land, að hafa sama framboð úti um allt land og að það sé ríkisstyrkt dreifikerfi í því. (Gripið fram í.) Af hverju erum við ekki þá með ríkisstyrkt kerfi í öðrum nauðsynjavörum eins og barnamat?

Meinar hv. þingmaður það að þetta sé engin venjuleg neysluvara með því að verja kerfi til að tryggja þetta á góðu og sama verði úti um allt land?