144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:18]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það væri ánægjulegt ef hv. þingmaður flytti sjálfstæða tillögu um að auka forvarnir og efla lýðheilsusjóð en sú er ekki raunin. Þetta er hluti af því frumvarpi sem hér liggur fyrir og er þess vegna hluti af málinu í heild.

Hv. þingmaður segir að með þessu frumvarpi sé ekki verið að breyta neinu af þeim atriðum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin leggur áherslu á. Það er ekki rétt. Það er verið að breyta aðgengi að áfengi verulega sem er eitt af lykilatriðunum sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin bendir á.

Ég hef orðið vör við það í þessari umræðu að þingmönnum Sjálfstæðisflokksins liggur vont orð til opinberra starfsmanna. Í þessu máli er eins og áfengisbölið í landinu sé opinberum starfsmönnum að kenna, sú staðreynd að opinberir starfsmenn afgreiði og selji áfengi sé (Forseti hringir.) vandinn í þessum efnum. Ég er ekki sammála því og sé ekki að það komi málinu við, herra forseti.