144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:19]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mér finnst gott að fara eftir gögnum og því legg ég við hlustir þegar fólk talar um skýrslur, rannsóknir o.s.frv. Ég hlakka til að kynna mér betur þau gögn sem hv. þingmaður hefur bent á en ég get ekki að því gert að mér finnst oft það sem ég les einfaldlega ekki vera í samræmi við raunveruleikann sem ég upplifi, hvort sem það er hér eða í Finnlandi þar sem ég bjó eða í Kanada þar sem ég bjó.

Hv. þingmaður nefndi að í ákveðinni skýrslu hefði skaðsemin verið metin út frá fjórum liðum sem ég náði, þ.e. magni, tíðni skorpulifrar, tíðni dauðsfalla í umferðinni og drykkju ungs fólks.

Það er í raun bara tvennt sem afmarkar hvað mest mína afstöðu í þessu máli og hún er óráðin eins og er, þ.e. ég hallast að því að vera hlynntur þessu máli en áskil mér fullan rétt til að skipta um skoðun hvenær sem er og af hvaða ástæðu sem er. Ég lít mikið til unglingadrykkjunnar. Það er það sem ég hef mestar áhyggjur af og lít mest til. Sömuleiðis lít ég til annars fyrirbæris sem maður tekur eftir þegar maður fer svolítið á milli menningarheima og það er eðli drykkjunnar, drykkjumenningin sjálf. Ég hef tekið eftir því hér að fólk talar um að það auki neysluna að gera þetta — en neyslan hefur aukist gríðarlega síðan bjórinn var lögleiddur. Samt vill enginn fara til baka til ársins 1989. Enginn vill það, enginn hefur stungið upp á því hér, og það er vegna þess að áfengismenningin hefur ótvírætt batnað. Þótt aukin neysla valdi fleiri tilfellum skorpulifrar veldur hún til dæmis færri tilfellum ofbeldisverka.

Unglingadrykkja hefur farið niður síðustu tíu, fimmtán árin. Á sama tíma hefur aðgengið aukist, bæði hvað varðar afgreiðslutíma og fjölda vínbúða. Búðin heitir núna Vínbúðin og er með fallegu merki en ekki ÁTVR sem hljómar eins og einhver stofnun. Búðirnar eru með gegnsæjum gluggum, aðgengið er meira, búðirnar eru fleiri (Forseti hringir.) og á sama tíma dregur úr unglinganeyslu. Það er stórkostlegur sigur í þeim efnum þannig að ég skil ekki hvernig þetta á að passa (Forseti hringir.) við þá tölfræði sem hv. þingmaður bendir á.