144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:24]
Horfa

Helgi Hrafn Gunnarsson (P) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég verð alltaf einhvern veginn jafn undrandi á þessu. Markmið sem við virðumst eiga að setja okkur er að snúa aftur til eldri tíma þegar bjórinn var bannaður. Árið 1987 voru til dæmis 13 áfengisbúðir. Þær hétu ÁTVR og sýnileikinn var mun minni og heildaráfengisneyslan var minni en samt vill enginn fara til baka til þess tíma. Það er það sem ég er að reyna að átta mig á. Hvers vegna ekki? Hvers vegna vill fólk hafa þetta eins og þetta er núna? Hvers vegna er þetta fínt eins og það er núna? Hvers vegna segir enginn: Þetta var fínt eins og það var 1987? Þá var þetta meira í takt við þær ráðleggingar sem ég heyri frá hv. þingmanni og fleirum.

Hvað varðar unglinganeysluna hefur hún dregist saman. Það hlýtur að vera einhver útskýring á því. Varla er útskýringin sú að það séu miklu fleiri vínbúðir, að þær séu opnar lengur, að það sé sýnilegra áfengið í þeim og að það sé vinalegra nafn. Varla er það ástæðan fyrir því að unglingadrykkjan hefur minnkað — eða hvað?

Ég spyr hv. þingmann: Hvers vegna hefur unglinganeyslan dregist saman ef ekki vegna forvarna?