144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:26]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Álfheiði Ingadóttur fyrir prýðisræðu. Við erum sammála um að lýðheilsusjónarmið er mikilvægt í þessari umræðu og áfengi getur vissulega verið böl. Það mælir enginn gegn því.

Hv. þingmaður kom inn á samantekt landlæknis úr bókinni Áfengi – engin venjuleg neysluvara og þær varnir sem móta áfengisstefnu, sem hægt er að nota til þess, og taldi upp nokkra liði. Mér finnst það draga ágætlega fram að við erum í raun bara að tala um að breyta sölufyrirkomulagi. Þetta er eitt af öllum þeim atriðum. Aldurstakmarkanir við áfengiskaup verða óbreyttar. Takmarkanir á sölutímum og söludögum verða enn háðar skilyrðum. Það eru takmarkanir á auglýsingum, það verður áfram. Það verður að einhverju leyti takmarkaður fjöldi sölustaða, það verður háð framboði og eftirspurn eins og á markaði almennt. Áfengisskattar verða áfram háir. Við erum að binda 6 milljarða; 4,5 milljarða nettó í þessum rekstri. Veltan er einir 27–28 milljarðar. Við fórnum einhverju af álagningunni en við spörum stóran hluta kostnaðarins.

Ef við höldum okkur við þetta breytta sölufyrirkomulag, sem er bara einn af þáttunum, vil ég spyrja hv. þingmann: Af hverju telur hún að þetta verði slíkur vendipunktur þegar kemur að lýðheilsusjónarmiðum þegar við horfum til þróunar á Íslandi, að hér hefur til að mynda drykkja unglinga, sem við berum virðingu fyrir, sannarlega dregist saman þrátt fyrir (Forseti hringir.) aukið aðgengi?