144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:28]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður segir að það sé bara verið að breyta einu atriði í áfengisstefnunni í það heila og það sé „bara“ þetta aðgengi.

Ég verð að minna hv. þingmann og þingheim á að aðgengi í þessum efnum er víðtækt hugtak. Þetta er spurning um hvar og hvenær, hversu víða, og þetta er líka spurning um aldur, eins og hv. þingmaður nefndi að ekki sé gerð tillaga um að breyta, og enn fremur er þetta spurning um verðlag.

Halda menn ekki að það kynni að vera gefinn afsláttur af áfengi í tilteknum verslunum fyrir verslunarmannahelgina ef svo bæri undir?

Það sem ég bendi hér á er að þetta er ekkert „bara“, það er ekki einfalt að breyta bara aðgenginu með þessum hætti. Það hefur sýnt sig með þeim mælikvörðum sem eru lagðir af þeirri stofnun sem gerst þekkir til, Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, og við eigum aðild að og metum venjulega mikils það sem frá þeirri stofnun kemur, að það skiptir miklu máli hvernig aðgengi að áfengi er háttað. Þetta aðgengi er fjölþætt hugtak, það er ekki „bara“ að leyfa kaupmanninum eða verslunarkeðjunum eins og kemur fram í greinargerð með frumvarpinu að selja vín.

Það er rétt að við höfum náð árangri þegar kemur að unglingadrykkjunni og við skulum vona að sá árangur haldist. Við þurfum að verja þá stöðu. Við eigum ekki að grafa undan henni og rústa þá áfengisstefnu sem þó hefur skilað okkur áleiðis.