144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:33]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg):

Herra forseti. Ég vil fagna því að ítrekaðar óskir um nærveru hæstv. heilbrigðisráðherra hafa nú leitt til þess að ráðherra er kominn til umræðunnar. Það gefur manni tilefni til að beina máli sínu sérstaklega að því sem ég tel að hafi gildi, að hæstv. heilbrigðisráðherra tjái sig um hér ef hann, sem ég geri fastlega ráð fyrir, kemur til umræðunnar og tekur til máls.

Þá vil ég að sjálfsögðu fyrst nefna þá opinberu stefnu í áfengis- og vímuvörnum til ársins 2020 sem landlæknir hefur í sérstakri áskorun vakið athygli á. Landlæknir hefur sagt að það mál sem nú er til umfjöllunar á Alþingi geti haft umtalsverðar afleiðingar fyrir líf og heilsu einstaklinga og lýðheilsu hér á landi. Það er mat landlæknis á þessu máli. Hann bendir sérstaklega á þá stefnu og að þar komi meðal annars fram að mikilvægt sé að lýðheilsusjónarmið séu höfð að leiðarljósi ásamt bestu þekkingu á virkum og árangursríkum aðgerðum við alla ákvarðanatöku stjórnvalda er varða áfengi, ólögleg vímuefni og misnotkun ávana- og fíknilyfja og vefaukandi stera, og að eitt markmiða þeirrar stefnu sé að takmarka aðgengi að áfengi og öðrum vímugjöfum. Þetta þurfi að hafa í huga og mikilvægt að lýðheilsusjónarmið verði þar með höfð að leiðarljósi í komandi umræðum sem tengjast hugsanlegu afnámi á einkasölu á áfengi. Ég treysti því að hæstv. heilbrigðisráðherra komi inn á það hvernig þetta mál skarast við þá stefnu að hans dómi.

Ég vil í öðru lagi vekja athygli á og beina til hæstv. ráðherra að bregðast við áskorun sem okkur alþingismönnum hefur borist, öllum með tölu, frá samstarfsráði um forvarnir. Ég geri ráð fyrir því að hæstv. ráðherra meti mikils það starf sem þar er unnið. Þar eru geysilega margir mikilvægir aðilar sem eru ýmiss konar samstarfsaðilar stjórnvalda á þessu sviði, eins og samtökin Heimili og skóli, Foreldrasamtök gegn áfengisvandanum, skátahreyfingin, Samhjálp. Þar eru ungmenna- og íþróttahreyfingin og Ólympíuhreyfingin og fjölmargir fleiri aðilar sem menn geta séð á því að kynna sér áskorunina. Ber okkur alþingismönnum ekki að taka nokkurt tillit til þess þegar jafn gríðarlega stór og mikilvæg samtök, sem eru svo nátengd þessu máli, vinna með ungu fólki og málefnum þess, ekki síst, eða á heilbrigðissviðinu í sambandi við meðferðarúrræði, baráttu við tengda sjúkdóma o.s.frv., eiga í hlut? Vernd, samtök fanga, er aðili að þessu samstarfi um samráð um forvarnir svo dæmi mætti taka.

Þá vil ég í þriðja lagi inna hæstv. heilbrigðisráðherra eftir því hver séu viðhorf hans til hvatningar og leiðbeininga Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem með mjög skýrum og afdráttarlausum hætti hvetur lönd til þess að skoða og fylgja fordæmi þeirra Norðurlanda, og þá eftir atvikum annarra landa eða fylkja eins og í Kanada og Bandaríkjunum, sem móta sjálfstæða áfengisstefnu, að fara að hinni aðhaldssömu stefnu sem þar hafi greinilega skilað bestum árangri og hluti af því er fyrirkomulag ríkiseinkasölu á áfengi. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur verið algjörlega skýr í þeim efnum. Hún mælir með því fyrirkomulagi og sérfræðingar, bæði á hennar vegum og fleiri aðila, hafa aðspurðir varað við því að hverfa frá því fyrirkomulagi. Ber okkur ekki að hlusta eitthvað á það?

Í fjórða lagi mætti nefna sameiginlega stefnu Norðurlandanna, en hæstv. heilbrigðisráðherra er vafalaust kunnugur því að Ísland hafði meira að segja umtalsvert frumkvæði í því, eða fulltrúar okkar á vettvangi Norðurlandaráðs, að setja saman sameiginlegar áherslur í þessum efnum fyrir Norðurlöndin þar sem þetta er ofarlega á blaði, að takmarka aðgengið, og það hafa fjögur af fimm Norðurlöndunum gert með ríkiseinkasölu.

Það mætti nefna í fimmta lagi barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna sem við Íslendingar erum nú að innleiða, höfum ákveðið að gera. Er þetta auðveldlega samrýmanlegt því að taka áhættu í þessum efnum og hverfa frá fyrirkomulagi sem hver ræðumaðurinn á fætur öðrum hér hefur sagt að hafi verið að skila okkur ágætum árangri, m.a. í því að takast á við unglingadrykkju? Er ástæða til að breyta fyrirkomulagi sem menn eru hver á fætur öðrum, jafnvel þó að þeir séu ósammála um þetta mál, að hrósa fyrir góðan árangur?

Að lokum mætti hæstv. heilbrigðisráðherra gjarnan tjá sig aðeins um hvernig heilbrigðiskerfið er undir það búið að takast á við aukin útgjöld og aukin verkefni sem mundu fylgja því ef niðurstaðan af breytingum af þessu tagi yrði aukin neysla og aukin áfengisvandamál. Telur hæstv. heilbrigðisráðherra að heilbrigðiskerfið sé sérstaklega aflögufært (Forseti hringir.) hvað varðar fjármuni og mannafla til þess að bæta á sig auknum verkefnum sem kynnu að fylgja því ef menn væru svo ógæfusamir að afgreiða þetta frumvarp?