144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[18:59]
Horfa

Flm. (Vilhjálmur Árnason) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður talaði um stuðning við samtök sem hafa unnið að forvörnum og látið sig þetta mál varða. Minn málflutningur hefur verið sá að gríðarlega góður árangur hafi náðst meðal ungmenna hvað varðar áfengisneyslu. Á þeim árangri hef ég viljað byggja og hef þakkað það góðu forvarnastarfi samtakanna, foreldranna og skólanna sem hafa tekið sig saman og náð gríðarlegum árangri eins og allar tölur og rannsóknir sýna. Er það ekki góður stuðningur við þessi samtök að draga þetta fram í umræðuna? Telur hv. þingmaður sig vera að styðja þessi samtök með því að halda því fram að það sem þau hafa verið að gera skipti engu máli fyrir þann árangur sem hefur náðst að undanförnu? Telur hv. þingmaður það ekki stuðning við þessi samtök að í frumvarpinu skuli vera nefnt að finna eigi leið til að auka lýðheilsusjóð um allt að 500 millj. kr.? Er það ekki stuðningur við það góða starf sem þessi samtök sinna?

Hv. þingmaður er í fjárlaganefnd. Ef hún vill styðja þessi samtök eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu án þess þó að það nái fram að ganga, hvernig ætlar hún þá að finna þessa fjármuni öðruvísi en með hagræðingu á því óhagkvæma kerfi sem við erum með?