144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:01]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég minni hv. þingmann á hvað samtökin sem hann vitnar til eru að biðja um. Þau eru að biðja um að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga. Þau eru ekki að horfa til þess að peningarnir, sem hv. þingmaður nefnir og eiga að fara í sjóði, renni til þeirra. Þeim finnst meira um vert að þetta frumvarp nái ekki fram að ganga. Þau hafa væntanlega lesið um þá fjármuni sem hv. þingmaður nefnir.

Ég vil benda hv. þingmanni á að ég starfaði sem forvarnafulltrúi í menntaskóla þannig að ég er nokkuð meðvituð um hvaða fjármagn hefur verið veitt til áratuga í það starf og það eru ekki miklir peningar. Ég vil líka minna hv. þingmann á að það er margbúið að lesa það hér upp hvað skiptir mestu máli. Auðvitað skiptir allt forvarnastarf máli. Það leggst allt á vogarskálarnar og hjálpar til, en það breytir ekki þeirri staðreynd að fyrirkomulag sölu áfengis er besta forvörnin. Það kemur fram í rökstuddum skýrslum sem hv. þingmaður virðist ákveðinn í að horfa fram hjá. Það passar ekki inn í frumvarpið og þar af leiðandi er bara ákveðið að horfa fram hjá því. Síðan eru aldurstakmarkanir. Þeim má ekki breyta, það er vissulega rétt. Ríkissala áfengis er númer tvö. Hvar er forvarnastarfið í röðinni? Það kom mér mjög á óvart og mér þykir miður að það hafi ekki borið meiri árangur í heildartölunum en kemur fram. Það breytir því ekki að að sjálfsögðu hættum við því ekki. Við höldum því áfram og styðjum við það hvað best við getum.

Þetta snýst um að þessi samtök vilja ekki frumvarpið í gegn, af því að spurningin gekk út á það, þrátt fyrir að þarna komi fjármunir til eins og hv. þingmaður benti hérna á. Ég held að ef virkilegur vilji er til þess að auka framlög til málaflokksins þá sé það sjálfsagt mál en það þarf ekki að gerast með þessum hætti.