144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:12]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er sammála því að ákveðin þróun hefur átt sér stað, það er náttúrlega í þessu eins og svo mörgu öðru.

Ég rakti í fyrstu ræðu minni mjög ítarlega hvernig þetta horfir við mér. Lengri opnun, þetta er sýnilegra, það er þannig. Ég fullyrði hins vegar að það er eins og með allt annað að við færum okkur bara til í neyslunni. Við bjuggum við það að ekki væri opið á laugardögum og sunnudögum í búðunum. Svo fór að verða opið á laugardögum og sunnudögum og þá færist verslunin til. Það hefur gerst með brennivínið eins og annað að sjálfsögðu. Það hefur ekkert að gera með eitthvað annað — og við höfum einna lengsta opnunartíma í verslunum, held ég, í Evrópu. Það er ekki endilega til góðs, hvorki í þessu né yfir höfuð í öðru. Það er svo aftur annað mál.

Ef ég fer í litla verslun úti á landi og mig vantar ákveðna tegund af víni þá pantar ÁTVR hana fyrir mig ef hún er ekki til mér að kostnaðarlausu. Ég þarf ekki að borga fyrir hana, þeir bara panta hana. Það eru 2.000 tegundir til á lager hér í Heiðrúnu. Ég er ekki viss um að einkaaðili mundi gera það og ég vil líka benda hv. þingmanni á að ég er heldur ekki viss um að Samkaup úrval í Ólafsfirði mundi leggja margar hillur undir fjölmargar tegundir af víni, það yrði þá á kostnað annarra vörutegunda, það er alveg ljóst. Ég á ekki von á því að þessar verslanir fari að byggja yfir sig til að geta selt brennivín. Það yrði þá einhverju öðru fórnað í staðinn en ég held að fyrst og fremst verði tegundirnar bara færri.

Það sem ég átti við með aðgengi ungs fólks þegar þetta er við hendina: Þú þarft ekki nema einn sem er árinu eldri til að kaupa fyrir þig og það er enn auðveldara þegar aðgengi er orðið svona mikið, það verður það klárlega, við getum ekki deilt um að það er þannig. En við eigum að horfa til þess að það hefur komið fram að þetta sé besta forvörnin.