144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[19:15]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem hér upp í aðra ræðu mína í þessari umræðu í tilefni af því að nú er hæstv. heilbrigðisráðherra í húsi og heyrir mál mitt.

Ég fór í fyrri ræðu minni yfir stöðuskýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar og þá mælikvarða eða þau atriði sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin skoðar og ber saman á milli tæplega 200 aðildarþjóða til að meta ástand sem varðar lýðheilsu, tengsl lýðheilsu og áfengis eða áfengisstefnu í viðkomandi ríki. Það kemur fram í þeim tölum sem ég rakti, en ég skoðaði svolítið samanburð á Íslandi við önnur norræn ríki og leit líka á Þýskaland og Rússland í því dæmi, að í mörgum atriðum stöndum við Íslendingar bærilega miðað við þessar þjóðir.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvernig hann metur þá stöðu Íslands sem dregin er upp í nýjustu skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar sem gefin var út í maí sl. Þar kemur til að mynda fram að áfengisneysla hér á mann, 15 ára og eldri, er 7,1 lítri af hreinum vínanda á móti 11 í Evrópu sem er bærilegt og býsna gott miðað við önnur norræn ríki og að ekki sé talað um Rússland. Það kemur hins vegar líka fram að neyslumynstrið hér er svolítið annað. Það er talið að um 24% af þeim sem neyta áfengis lendi í ofneyslu og ég rakti afleiðingar þess.

Það sem mig langar til að spyrja ráðherrann kannski sérstaklega um eru tengsl milli ölvunaraksturs og þeirra marka sem notuð eru við ölvunarakstur og svo þeirra talna sem koma fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um dauðsföll í umferðinni sem rekja má til áfengisneyslu. Þar kemur nefnilega fram að á Íslandi er talið að rekja megi 12,3% dauðsfalla karla í umferðinni til áfengisneyslu og 5,5% dauðsfalla kvenna í umferðinni til áfengisneyslu. Þetta er tæplega helmingi hærra en í Noregi svo dæmi sé tekið en lægra en í Svíþjóð og miklum mun lægra en í Finnlandi. Við á Íslandi erum með 0,5 prómill mark, þ.e. það er leyfilegt að aka með minna en 0,5 prómill af áfengismagni í blóði. Í Noregi er markið 0,2 prómill og líka í Svíþjóð.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort einhverjar hugmyndir séu uppi um að breyta þessum mörkum, kannski með tilliti til þeirra talna sem eru dregnar fram í skýrslu Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar um dauðsföll af völdum ölvunaraksturs.

Ég nefndi það einnig áðan að ég teldi að áfengismálum, þar á meðal stjórnsýslu ÁTVR, væri betur komið innan heilbrigðisráðuneytisins en fjármála- og efnahagsráðuneytisins. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra hvort hann hafi skoðun á því máli og hvort hann sé ekki sammála mér þar um.