144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:07]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Þetta var afskaplega fróðleg ræða. Ég vona að sem flestir úr lýðheilsugeiranum, læknar, hjúkrunarfólk og þeir sem sinna forvarnamálum, hafi hlýtt á þennan boðskap. (Gripið fram í.)

Í fyrsta lagi segir hv. þingmaður að þetta frumvarp hafi ekkert með lýðheilsu að gera.

Ég vil gjarnan spyrja hann að því hvort hann telji að það sé ekkert samhengi á milli dreifingarmáta annars vegar og neyslu áfengis hins vegar. Nær allar kannanir sem fram hafa verið reiddar leiða hið gagnstæða í ljós.

Síðan segir hv. þingmaður að útsölustöðum áfengis hafi fjölgað í landinu. Það er alveg rétt. Það er búið að opna slíkar verslanir þannig að landsmenn hafa víðast hvar á landinu aðgengi að áfengi. En því er ekki saman að jafna annars vegar 12 útsölustöðum á höfuðborgarsvæðinu og 60–70 stórverslunum. Ég tala nú ekki um ef allar verslanir tækju hillupláss undir áfengi, þá yrðu þær miklu fleiri. Því er náttúrlega ekki saman að jafna sem þá mundi gerast borið saman við það kerfi sem við búum við nú, 12 verslanir á höfuðborgarsvæðinu.

Allir sem hafa tjáð sig um þessi mál úr lýðheilsugeiranum vara við þessu og segja að hinn ágengi og freki áfengisiðnaður hafi ekki bara hér á landi heldur víðast hvar barist fyrir því að fá aukið hillupláss til að koma vöru sinni á framfæri, að sjálfsögðu. Þegar vitnað er í forvarnir sem í sumum tilvikum hafa gengið vel, eins og hjá yngstu hópunum, þá segja allir þeir sem sinna þessum málum að það hafi gengið upp í skjóli þess dreifingarfyrirkomulags (Forseti hringir.) sem við búum við. Eigum við ekki að hlusta á þetta fólk?