144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:09]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Að sjálfsögðu eigum við að hlusta á allt fólk. Ég er bara að segja að ég skilji ekki þessi rök.

Hefur verslunum fjölgað? Þegar ég var ungur maður voru þrjár á höfuðborgarsvæðinu. Opnunartíminn var miklu skemmri en núna. Ég man alveg þann tíma. Ég man hvernig áfengisneysla var í landinu á þeim tíma, ég man hvernig menn umgengust áfengi og það er ekki líku saman að jafna við daginn í dag eftir þessa miklu fjölgun. Það er bara þannig.

Ég get auðvitað skilið að fólk í heilsugeiranum hafi áhyggjur af öllu sem snýr að heilbrigði. Það getur samt enginn horft fram hjá þeirri staðreynd, ekki lýðheilsufólk heldur eða heilbrigðisgeirinn, að vandamál í kringum áfengisdrykkju hafa þrátt fyrir allt minnkað með fjölgun staða. Við getum ekki horft fram hjá því. Þeir sem hafa unnið í undirheimunum sjá þetta. Við vitum alveg hvernig menntaskólabörnin voru í gamla daga og hvernig þau eru núna.

Ég er ekki sáttur við það að ég geti ekki nálgast þessa vöru með tiltölulega einföldum hætti af því að einhver annar ræður ekki við hana. Ég vil ekki hugsa þannig, ég tel að það sé ekkert gagn að því og tel það vera venjulega forsjárhyggju sem gerir ekkert gagn. Það væri annað ef hún gerði gagn. Ég held að það séu allt önnur atriði en búðirnar eða áfengið sem slíkt sem gerir að verkum að fólk misnotar áfengi. Það er einhver önnur orsök, ekki að það séu til fleiri eða færri áfengisbúðir.