144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:21]
Horfa

Álfheiður Ingadóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Við erum að ræða stórt mál, lýðheilsumál. Þetta snýst um mjög flókið net orsaka og afleiðingar. Það er ekki hægt að miða allt út frá sjálfum sér. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að ógæfa annarra og hættan sem þeir valda sjálfum sér og öðrum setur ósjálfrátt frelsi einstaklingsins mörk í samfélagi manna, ef við viljum búa í samfélagi manna. Við búum þar saman og berum samfélagslega og sameiginlega ábyrgð á heilsufari og lífsgæðum okkar allra í þessu sama samfélagi.

Það hlýtur að vera þannig, hv. þingmaður, herra forseti, að áhrifin af athöfnum einstaklinga, hér áfengisneyslu og ofneyslu áfengis fyrst og fremst, eru ekki einungis á viðkomandi einstakling, ekki á þennan neytanda sem hv. þingmaður vill nú allt í einu draga hér inn, heldur á allt samfélagið í heild, á börnin hans, á fjölskylduna, á allt samfélagið í heild.

Það er rangt að segja að hér hafi verið vitnað í einhverjar handvaldar rannsóknir og ótilgreindar sem ekki sé hægt að ná utan um. Þær upplýsingar sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin vinnur með eru allar fengnar frá íslenskum yfirvöldum, rétt eins og fjöldi fæddra og dáinna sem Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin heldur líka skrá yfir, skrá yfir barnadauða sem við teljum okkur vera ánægð með þegar það kemur þaðan. En af hverju ættum við að neita, (Forseti hringir.) afneita tölum (Forseti hringir.) Alþjóðaheilbrigðismálastofnunar í þessu eina (Forseti hringir.) máli, hv. þingmaður?