144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:24]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er ekki að segja að það eigi að neita tölum frá Alþjóðaheilbrigðismálastofnun. Ég er aðeins að velta fyrir mér hvernig menn finni það út að vandamálið og misnotkun á áfengi hafi með útsölustaði að gera, fjölda þeirra. Er niðurstaðan einhvern veginn þannig? Hvað hafa menn fyrir sér í því? Tóku menn inn í þetta aukningu ferðamanna? (Gripið fram í: Aukið aðgengi, aukin drykkja.)(Gripið fram í: Ekki unglingadrykkja, bara …) Svo eru rannsóknir sem sýna að unglingadrykkja hefur farið niður. Um hvað snýst (Gripið fram í.) vandamálið? Snýst vandamálið ekki um misnotkun, um heilsuspillandi misnotkun á áfengi? Snýst það endilega um heildarvínandamagn, sem auðvitað jókst þegar bjórinn kom, það er enginn vafi á því? (Gripið fram í: Vandamálið …) Nei, könnunin segir ekki til um það. Hún segir bara: Meiri neysla með meira aðgengi. Svo koma menn með aðrar rannsóknir sem sýna eitthvað allt annað.

Ég verð að segja það enn einu sinni að ég á erfitt með að skilja af hverju mitt brennivínsbrúk og mitt vandamál ætti að aukast eftir því hversu langt er að fara í vínbúð. Þetta er auðvitað venjuleg afturhaldssemi ríkiseinokunarsinna sem alltaf hefur verið og verður alltaf. (Gripið fram í.) Já, og ég er að hitna og var alveg eins í bjórumræðunni, svo ég rifji hana aftur upp. (Gripið fram í.) Og af hverju eru menn ekki búnir að leggja fram frumvarp um að hætta að selja bjór? (Gripið fram í.) Það dettur auðvitað engum slík vitleysa í hug.

Ef þetta frumvarp fer í gegn og við fjölgum verslunum mun engum detta í hug að fara til baka og vera með ÁTVR aftur. Engum. Þetta er bara venjulegt afturhald sem virðist (Forseti hringir.) vera hjá framsóknarmönnum líka. (Gripið fram í.)