144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:40]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég veit ekki til þess að nokkur sé að horfa til stefnu okkar í áfengismálum. Ég hef hvergi séð það að menn hafi áhuga á því í Evrópu.

Hv. þm. Þórunn Egilsdóttir talaði um breska rannsókn. Ég hef gagnrýnt það að menn séu að segja að rannsóknir sýni og sanni hitt og þetta, svo handvelja menn út eitthvað sem hentar.

Ég spyr hv. þm. Þórunni Egilsdóttur: Var eitthvað meira í þessari bresku rannsókn sem kannski hefði verið ástæða til að fjalla um, eins og það að unglingadrykkja hefði minnkað, dauðsföll vegna aksturs undir áhrifum áfengis hefðu dregist saman? Hvað skiptir máli í þessu? Og hvernig fær hv. þm. Þórunn Egilsdóttir það út allt í einu að ástandið hér núna sé gott? Hefðum við enn verið með þær gömlu þrjár verslanir sem afgreiddu yfir borðið og ég hefði lagt til að þeim fjölgaði í tólf, hefði þá ekki hv. þm. Þórunn Egilsdóttir sagt: Nei, að þær verslanir á Snorrabrautinni, Laugarásvegi og Lindargötu væru bara gott ástand, allir gætu fengið sitt brennivín?

Það sem ég er að segja er afturhaldið í þessu öllu saman. Menn ætla bara að staðna í þessu. Ef menn líta á þessa vöru sem hættulega í staðinn fyrir að horfa á það að sá sem neytir hennar í óhófi sé vandamálið en ekki varan, þá komumst við auðvitað ekkert áfram, þá verðum við í gamla systeminu alla tíð og værum enn bjórlaus ef sumir hefðu fengið að ráða.

Ég er einungis að segja að það er ekkert samasemmerki með einhverjum sönnuðum rannsóknum um að vandamálið sé að verslunum muni fjölga eitthvað örlítið við að taka af ríkiseinokun.