144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:42]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Brynjari Níelssyni fyrir andsvarið en vil jafnframt benda honum á að þrjár búðir í Reykjavík væru ekki nægjanlegt ef við erum að tala um þjónustu um allt land, svo afturhaldssöm er ég nú ekki. Þú þarft ekki að hafa áhyggjur af því, hv. þingmaður.

Þú vitnar í bresku rannsóknina og að kannski mætti kafa dýpra í hana. Vissulega hefur áfengisdrykkja unglinga minnkað, en því miður hefur eiturlyfjanotkun aukist þar á móti. Það er varla kostur sem við teljum góðan.

Um hitt hef ég svo sem engu við að bæta, ég held að við séum á ágætri leið með þetta. Auðvitað má bæta þjónustuna og gera hana betri. En það að einkaaðilar og auglýsingastofur geti farið að stórauka kostnað sinn á þessu sviði, farið að keppast um hillupláss og söluvöru tel ég alls ekki rétta leið fyrir okkur, þar tel ég að við séum ekki á réttri leið.