144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[20:44]
Horfa

Brynjar Níelsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, það er svolítið erfitt að ákveða hvað er akkúrat hæfilegt en mér finnst mjög sérstakt að það skuli vera hæfilegt akkúrat núna. (Gripið fram í.) Nei, auðvitað ekki, en ef við horfum á þetta með þeim hætti sem margir andstæðingar frumvarpsins hafa gert, þ.e. að um leið og einhver nýr útsölustaður opni þá verði fjölgun og þá muni vandinn auðvitað aukast. Menn hafa ekkert fyrir sér í því. Við getum sagt að ef áfengisútsala væri hér á hverju horni eða bara í hverju húsi þá mundi maður kannski fá sér aðeins oftar vín. En við erum alltaf að glíma við vandamálið, og það er alveg rétt hjá hv. þm. Þórunni Egilsdóttur, að kannski minnkar unglingadrykkja eða drykkja almennt, en eykst þá ekki bara eitthvað annað? Það er ef til vill rétt að kannski er summa lastanna alltaf sú sama, það skiptir engu máli hvað við höfum marga útsölustaði, það getur vel verið að við drekkum þá meira brennivín en þá notum við minna aðra hættulegri vímugjafa. Ég held að það sé ekki verið að laga neitt með því að stoppa það að hér verði alvöruverslun með áfengi heldur færum við kannski vandamálið eitthvað til. Þess vegna skipta miklu máli forvarnir, uppeldi, staða fjölskyldunnar og hversu sterkt þetta samfélag er, það ræður því hvernig þessi þjóð drekkur og hversu mikið hún misnotar áfengi, ekki það hvort útsölurnar eru 10, 20 eða 30, það hefur ekkert með það að gera. (Gripið fram í.) Fleiri glæpir? Ég þarf kannski líka að tala um andlega heilsu.