144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs.

26. mál
[21:26]
Horfa

Flm. (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir tillögu til þingsályktunar um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs. Þetta er raunar tillaga sem ég flutti á síðasta þingi og hafði áður verið flutt, bæði á 140. og 141. löggjafarþingi, í bæði skiptin af hv. fyrrverandi þingmanni Guðfríði Lilju Grétarsdóttur með meðflutningi nokkurra annarra þingmanna. Þessa tillögu flyt ég og allir þingmenn Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs, enda er þetta eitt af okkar forgangsmálum. Við munum leggja mikla áherslu á að vinna þessu máli fylgi og tryggja að það hljóti afgreiðslu á þessu þingi.

Tillagan hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela umhverfis- og auðlindaráðherra að vinna að því, í samvinnu við skipulagsyfirvöld og hugsanlega rétthafa, að stofna Hofsjökulsþjóðgarð sem hafi innan sinna marka Hofsjökul og aðliggjandi svæði.“

Síðan er sú breyting sem gerð var á tillögunni í fyrra, sagt er hér í tillögugreininni:

„Við afmörkun þjóðgarðsins verði höfð hliðsjón af mati á því verndargildi náttúrufars og menningarminja sem liggur til grundvallar þingsályktun nr. 13/141, um áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, sem var samþykkt á Alþingi 14. janúar 2013.“

Okkur finnst rétt að breyta tillögunni á þennan hátt í ljósi þess að sömu sjónarmið gilda þegar dregin eru mörk verndunar og nýtingar landsvæða og þegar dregin eru þjóðgarðsmörk. Í báðum tilvikum eru þau landsvæði afmörkuð sem skulu njóta friðunar og varðveitast til framtíðar með öllum eiginleikum sínum. Afmörkuð eru þau landsvæði sem enginn aðili hefur vald til að spilla eða leggja undir starfsemi sína en þegar þjóðgarður á í hlut skal jafnframt tryggja aðgang almennings að svæðinu og gefa fólki kost á að njóta þar náttúru og sögu með þeim hætti að ekki valdi spjöllum.

Síðan kemur fram í tillögugreininni að ráðherra skuli kynna Alþingi stöðu málsins fyrir lok vorþings 2015 og stefnt verði að formlegri stofnun þjóðgarðsins árið 2016.

Eins og fram kom mælti ég fyrir þessu máli á síðasta þingi og málið fór út til umsagna. Mig langar að byrja á að segja frá því að vissulega eru umsagnir margháttaðar en þó er meiri hluti þeirra umsagna sem inn kom jákvæður í garð þessa máls sem er mikið fagnaðarefni. Í nánast öllum umsögnum má greina að menn leggja mikla áherslu á samráð, ekki síst við undirbúning að stofnun slíks þjóðgarðs. Því finnst mér eðlilegt að reifa það hér að það er í góðu lagi mín vegna að skoða þau tímamörk sem við leggjum til í tillögunni. Mestu skiptir auðvitað að ná sátt um stofnun slíks þjóðgarðs. Það er mjög áhugavert að sjá, eins og ég nefndi hér, að langflestar umsagnirnar eru jákvæðar.

Mér finnst til að mynda mikilvægt að vitna til umsagnar Landverndar. Þau samtök benda á að þau hafi lýst þeim vilja sínum að miðhálendi Íslands allt verði friðlýst með stofnun þjóðgarðs. Í umsögn, sem þau sendu inn um rammaáætlun, eða áætlun um vernd og orkunýtingu landsvæða, segja þau:

„Mörg og sterk rök hníga að slíkri friðlýsingu, sérstök náttúra sem Íslendingar bera ábyrgð á, möguleikar til einstakrar upplifunar og hughrifa, og sjálfbær ferðaþjónusta og verðmætasköpun fyrir þjóðina. Útivist í lítt snortinni náttúru er einnig mjög mikilvæg fyrir líkamlega heilsu og vellíðan fólks. Sérstaða og verðmæti svæðisins felast í einstakri náttúru, gróðurvinjum, jarðfræði og landmótun, einstöku samspili elds og íss og óviðjafnanlegum andstæðum í landslagi og víðernum sem af mörgum eru talin meðal síðustu stóru víðerna Evrópu.“

Landvernd leggur áherslu á að við skoðum miðhálendið sem eina heild, en segir um leið að tilkoma Hofsjökulsþjóðgarðs yrði afar jákvæð þróun í náttúruverndarmálum á Íslandi.

Ég ætla ekki að lesa hér upp fleiri umsagnir, þær eru allar aðgengilegar. En eins og ég segi er meiri hluti þeirra jákvæður en líka lögð mikil áhersla á samráð um stofnun slíks þjóðgarðs.

Umræðan eða hugmyndin um stofnun Hofsjökulsþjóðgarðs kom upp á miðjum tíunda áratug liðinnar aldar. Ég nefni til að mynda að á árinu 1998 flutti hv. þáverandi þingmaður Hjörleifur Guttormsson þingsályktunartillögu þar sem kveðið var á um stofnun fjögurra þjóðgarða á miðhálendinu sem hefðu innan sinna marka helstu jökla miðhálendisins og aðliggjandi landsvæða, þ.e. Hofsjökuls-, Langjökuls-, Mýrdalsjökuls- og Vatnajökulsþjóðgarða. Sú tillaga var endurflutt á 123. löggjafarþingi og leiddi til ályktunar Alþingis árið 1999 um stofnun Vatnajökulsþjóðgarðs. Í kjölfarið fór fram mjög umfangsmikil og vönduð vinna. Niðurstaða hennar varð lögin frá 2007 um Vatnajökulsþjóðgarð, þá var þjóðgarðurinn formlega stofnaður með reglugerð vorið 2008.

Ég held að allir geti verið mjög ánægðir með það hvernig til hefur tekist. Ég átti nú síðast hér á síðasta þingi orðastað við hæstv. umhverfis- og auðlindaráðherra um það hvernig hann sæi fyrir sér áframhaldandi þróun Vatnajökulsþjóðgarðs. Í þeim umræðum kom fram sú ánægja sem er með það skipulag sem þar er, sem auðvitað er sérstakt, en mikið samráð er haft við heimamenn um það hvernig staðið er að þróun mála innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Það byggir í raun á því samráðsferli sem haft var fyrir stofnun hans.

Hvað varðar stofnun þjóðgarðs í kringum Hofsjökul þá held ég að verulegur stuðningur geti verið fyrir því. Ég vil til að mynda nefna að í október árið 2011 var gerð skoðanakönnun fyrir náttúruverndarsamtök sem leiddi í ljós að víðtækur stuðningur var við stofnun þjóðgarðs á miðhálendi Íslands. Það er sú tillaga sem ég vitnaði hér til áðan úr umsögn umhverfissamtakanna Landverndar. Þar kom fram að 56% aðspurðra voru hlynnt slíkum þjóðgarði, 17,8% andvíg og 26,2% tóku ekki afstöðu. Samkvæmt þessari könnun átti hugmyndin stuðning meðal kjósenda allra stjórnmálaflokka, allra aldurshópa og um land allt. Því væri það náttúrlega ákjósanlegt að um þetta mál mætti ná víðtækri sátt hér á þingi.

Ég vonast til þess að málið fái ítarlega skoðun í hv. umhverfis- og samgöngunefnd, því að það er óumdeilt, virðulegi forseti, að við eigum gríðarleg verðmæti í víðernum þessa lands, ósnortnum víðernum sem fækkar nú mjög í þessum heimshluta, víðernum sem bæði ferðamenn hafa áhuga á að sækja heim, svo mikinn áhuga að jafnvel er rætt að takmarka þurfi að einhverju leyti aðgengi til að hægt sé að tryggja að hér verði áfram víðerni en ekki bara uppbyggðar þjónustumiðstöðvar á hálendinu eða eitthvað slíkt. Ég held að huga þurfi að þessum verðmætum til lengri tíma, ekki bara út frá skammtímasjónarmiðum um að hægt sé að fjölga ferðamönnum til skamms tíma, heldur að við viljum varðveita þessi víðerni til lengri tíma, bæði fyrir ferðamenn en líka fyrir landsmenn alla. Hofsjökulsþjóðgarður gæti orðið einn áfangi í því að tryggja þessi víðerni sem fela í sér ómæld verðmæti.

Ég ætla ekki að fara að lýsa þessu svæði en ef Hofsjökull yrði miðja þessa þjóðgarðs, sem er í raun stór ísfyllt askja, þá eru gríðarmörg svæði í kringum Hofsjökul þar sem eru mjög mikilvægar landslagsheildir. Með því að horfa á þetta sem eina heild þá yrði þessu svæði, að ég tel, veittur verðskuldaður sómi.

Eins og ég segi líka og það kemur fram í öllum þessum umsögnum þá þarf að hafa samráð við alla aðila, vissulega við rétthafa en líka við aðila sem eiga þarna leið um, hvort sem það eru útivistarsamtök eða aðrir þannig að allir taki þátt í þessu. Ég tel að við gætum náð mikilvægu skrefi í að varðveita þau verðmæti sem við eigum hér og stigið annað skref á eftir Vatnajökulsþjóðgarði í það að ná aukinni sátt um friðun þessara mikilvægu svæða á miðhálendinu.

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta lengra. Ég legg til að að þessari umræðu lokinni verði málinu vísað til hv. umhverfis- og samgöngunefndar. Ég ítreka það sem ég sagði hér í upphafi míns máls að við munum gera okkar ýtrasta til að vinna þessu máli fylgi og leita til allra flokka um þau mál, því að þetta ætti að vera mál sem varðar okkur öll.