144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[21:45]
Horfa

Flm. (Frosti Sigurjónsson) (F):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða, með síðari breytingum.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á fjárfestingarheimildum lífeyrissjóða, nánar tiltekið að lífeyrissjóðum verði heimilt að fjárfesta í verðbréfum sem skráð eru á markaðstorgi fjármálagerninga til jafns við verðbréf sem skráð eru á skipulegan markað.

Frumvarpið byggir á frumvarpsdrögum sem Kauphöll Íslands sendi hv. efnahags- og viðskiptanefnd haustið 2013. Nefndin fjallaði um málið, fékk gesti og umsagnir en ekki náðist að mæla fyrir málinu á því þingi.

Flutningsmenn eru hv. þingmenn fimm þingflokka en þeir eru Frosti Sigurjónsson, Pétur H. Blöndal, Líneik Anna Sævarsdóttir, Vigdís Hauksdóttir, Willum Þór Þórsson, Össur Skarphéðinsson, Kristján L. Möller, Guðmundur Steingrímsson og Steingrímur J. Sigfússon.

Frumvarpið má finna á þskj. 30 og vísa ég til þess þar sem ég mun ekki fara yfir það frá orði til orðs heldur rekja helstu efnisatriði.

Frumvarpið leggur til þrjár breytingar á 36. gr. laganna er varða fjárfestingarheimildir lífeyrissjóða. Efnislega fela þessar breytingar í sér að lífeyrissjóðum verður heimilt að flokka verðbréf sem tekin hafa verið til viðskipta á markaðstorgi fjármálagerninga sem skráð verðbréf. Einnig verður aflétt skilyrðinu um að verðbréf þurfi að hafa skráð sölu- og kaupgengi til að teljast skráð verðbréf.

Með frumvarpinu er stefnt að því að auka möguleika lífeyrissjóða til að fjárfesta í smáum og meðalstórum fyrirtækjum. Með frumvarpinu skapast einnig aukinn hvati fyrir smá og meðalstór fyrirtæki til að uppfylla þau skilyrði sem gerð eru til skráningar á markaðstorg fjármálagerninga. Eftir því sem fleiri fyrirtæki leita skráningar eykst framboð fjárfestingarkosta fyrir lífeyrissjóðina og þar með möguleika þeirra til að auka fjölbreytileika og áhættudreifingu í eignasöfnum sínum. Verði frumvarpið að lögum má búast við að aðgengi smárra og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni til vaxtar muni batna en aðgengi smárra og meðalstórra fyrirtækja að fjármagni er talin mikilvæg forsenda hagvaxtar.

Þrír fjórðu hlutar iðgjalda lífeyrissjóða koma frá launþegum smárra og meðalstórra fyrirtækja. Sé lífeyrissjóðum torveldað að fjárfesta í slíkum fyrirtækjum getur það dregið úr grósku atvinnulífsins almennt og hagvexti. Að beina fjárfestingum lífeyrissjóða alfarið að verðbréfum stórfyrirtækja og verðbréfum hins opinbera getur aukið áhættu og dregið úr ávöxtun lífeyrissjóða. Þegar efnahagsáföll dynja yfir eru smá og meðalstór fyrirtæki almennt fljótari að aðlaga sig nýjum aðstæðum en stór fyrirtæki. Almennt má segja að lítil fyrirtæki geti vaxið hraðar en stór fyrirtæki og því skilað fjárfestum góðri ávöxtun.

Eins og kunnugt er starfrækir Kauphöll Íslands markaðstorg fjármálagerninga undir nafninu First North Iceland og skipulagðan markað undir nafninu Aðalmarkaður. Félög sem skráð eru á Aðalmarkað og First North Iceland þurfa að uppfylla skilyrði sem miða að því að tryggja vernd fjárfesta. Samkvæmt gildandi lögum hafa lífeyrissjóðir takmarkaðar heimildir til að fjárfesta í óskráðum hlutabréfum. Lög um lífeyrissjóði skilgreina félög á Aðalmarkaði sem skráð félög en félög á First North Iceland sem óskráð. Þetta misræmi gæti skýrt þá stöðu að hér eru aðeins þrjú fyrirtæki skráð á First North Iceland markaðinn en hins vegar eru 15 fyrirtæki skráð á Aðalmarkað, þó að sú leið sé fyrirtækjum verulega kostnaðarsamari.

Verði frumvarpið að lögum er vonast til þess að fleiri smá og meðalstór fyrirtæki sjái sér hag í því að leita skráningar á markaðstorg fjármálagerninga enda verði stærstu fjárfestar landsins, lífeyrissjóðirnir, ekki lengur útilokaðir frá því að eiga þar viðskipti. Reyndar er lífeyrissjóðum heimilt að fjárfesta í verðbréfum sem teljast óskráð en aðeins upp að vissu marki sem nú er 20% af hreinni eign sjóðs. Æskilegt væri að lækka þetta hlutfall í framtíðinni en þá er lykilatriði að skapa hvata fyrir fyrirtæki til að uppfylla skilyrði skráningar og fjölga þannig skráðum fjárfestingarkostum.

Virðulegi forseti. Vík ég nú að kröfunni í gildandi lögum um að kaup- og sölugengi sé forsenda þess að verðbréf teljist skráð. Samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laganna er lífeyrissjóðum heimilt að ávaxta fé sitt með þeim hætti sem þar er kveðið á um, svo sem með fjárfestingum í tilteknum skuldabréfum, hlutabréfum fyrirtækja og í hlutdeildarskírteinum eða hlutum verðbréfasjóða eða fjárfestingarsjóða. Það skilyrði er þó sett fyrir slíkum fjárfestingum í 2. mgr. lagagreinarinnar að verðbréf sem lífeyrissjóðum er heimilt að fjárfesta í hafi skráð kaup- og sölugengi á skipulegum markaði. Til að uppfylla núverandi skilyrði um skráð kaup- og sölugengi þurfa útgefendur líklega að kaupa þjónustu fjármálafyrirtækis sem mundi setja fram dagleg kaup- og sölutilboð, svokallaða viðskiptavakt. Að gera slíka þjónustu að skilyrði eykur verulega kostnað við skráningu verðbréfa.

Þar sem lífeyrissjóðir fjárfesta yfirleitt til langs tíma má segja að krafa um daglegt kaup- og sölutilboð sé ekki forgangsmál fyrir þá. Mikilvægast sé að útgefendur uppfylli þau skilyrði um upplýsingagjöf og gagnsæi sem skráningu fylgir og að banni við markaðssvikum og eftirliti með reglum sé fylgt. Hér á landi eru gerðar sambærilegar kröfur um rekstur markaðstorgs fjármálagerninga og skipulegra markaða. Þannig eru skráningarskilyrði og reglur um upplýsingagjöf oft sambærilegar þó svo að markaðstorgi fjármálagerninga sé veitt meira svigrúm til mótunar eigin reglna. Reglur um gagnsæi í upplýsingagjöf, bann við markaðssvikum og eftirlit eiga bæði við um markaðstorg fjármálagerninga og skipulega markaði. Félagi sem hefur verðbréf skráð á markaðstorgi fjármálagerninga er skylt að birta allar innherjaupplýsingar opinberlega. Þannig er tekið á því sem telja verður mikilvægasta þáttinn í upplýsingagjöf félaga sem hafa verðbréf í viðskiptum á markaði.

Einnig ber að nefna í þessu sambandi að fjármálafyrirtæki eða kauphöll sem rekur markaðstorg fjármálagerninga er skylt að tryggja að aðilar að markaðstorginu hafi aðgang að nægilegum opinberum upplýsingum til að geta tekið fjárfestingarákvarðanir. Kauphöll Íslands hf., sem starfrækir eina markaðstorg fjármálagerninga á Íslandi undir nafninu First North Iceland, fellur undir fyrrgreint ákvæði og hefur á grundvelli þess sett reglur sem gilda um upplýsingaskyldu á First North Iceland markaðnum.

Ljóst er að þó svo að reglur um upplýsingaskyldu á markaðstorgi fjármálagerninga gangi að vissu leyti skemur en á skipulegum mörkuðum eru strangar kröfur gerðar varðandi upplýsingagjöf félaga sem hafa verðbréf skráð á markaðstorgi fjármálagerninga. First North Iceland markaðurinn setur strangar skyldur um upplýsingagjöf sem nálgast þá skyldu sem hvílir á félögum sem hafa skráð verðbréf á aðallista. Hvað varðar bann við markaðssvikum, þ.e. markaðsmisnotkun og innherjasvikum, gilda sömu reglur á skipulegum mörkuðum sem og á markaðstorgum fjármálagerninga.

Fjármálaeftirlitinu er falið að hafa eftirlit með umræddum ákvæðum og lög um verðbréfaviðskipti skilgreina einnig hvaða viðurlög eru við brotum gegn ákvæðum sem leggja bann við markaðssvikum. Ákvæði 21. gr. laga um kauphallir gerir sams konar kröfu um eftirlit skipulegra markaða með viðskiptum. Það er því ljóst að ákvæði laga setja sömu skorður við markaðssvikum á skipulegum mörkuðum og markaðstorgum fjármálagerninga og tryggja sams konar eftirlit og viðurlagabeitingu.

Samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti skal aðili sem rekur markaðstorg fjármálagerninga setja reglur um þau skilyrði sem fjármálagerningar þurfa að uppfylla svo að viðskipti geti farið fram með þá á markaðstorginu.

Kauphöll Íslands hefur sett ítarleg skilyrði fyrir skráningu á First North Iceland. Þó svo að ekki sé að öllu leyti gengið jafn langt í þeim efnum eins og á aðallista eiga reglurnar að tryggja að skráning þjóni hagsmunum almennings og verðbréfamarkaðarins. Í þeim tilgangi hafa verið sett skilyrði sem eiga að tryggja seljanleika og framseljanleika bréfanna og lágmarksdreifingu hlutafjár. Einnig verður félag að uppfylla kröfur um birtingu upplýsinga samkvæmt reglum First North Iceland.

Að öllu þessu virtu er ljóst að reglur sem gilda um skráningu fjármálagerninga á First North Iceland eru um margt sambærilegar þeim reglum sem eiga við á aðallista. Því er að mati flutningsmanna eðlilegt að verðbréf á markaðstorgi fjármálagerninga teljist skráð verðbréf hvað varðar kaupheimildir lífeyrissjóða.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til efnahags- og viðskiptanefndar að lokinni þessari umræðu.