144. löggjafarþing — 22. fundur,  21. okt. 2014.

skyldutrygging lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða.

30. mál
[22:24]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að það væri ágætt ef hv. nefnd kynnti sér með hvaða hætti þessu er fyrir komið í Danmörku. Þar er oft erfitt um samanburð fyrir okkur Íslendinga því að það sem við köllum stórfyrirtæki eru að jafnaði í löndunum sem við berum okkur saman við smáfyrirtæki og meðalstór fyrirtæki þar eru oft og tíðum risastór fyrirtæki á okkar litla mælikvarða. Það verður að gæta þess að bera saman sambærilega hluti.

Ég fagna því að hv. þingmenn leggja áherslu á að vanda mjög til umfjöllunarinnar.

Hvað varðar hugmyndina um að leggja til hagvaxtar þá vara ég sérstaklega við því. Sjóðirnir eiga að horfa til ávöxtunar fyrir sjóðfélaga í lífeyrissjóðunum og þeir eiga að einbeita sér að því. Staðreyndin er sú að allt er í heiminum hverfult og það sem við kunnum að telja ákaflega skynsamlega kosti í stjórnmálunum á einu missiri kunna að vera arfaslakir kostir á næstu missirum. Ágætt dæmi um það er þegar allir voru að ræða fyrir örstuttu síðan hvernig olíuverðið væri á leiðinni upp úr skýjunum, hvernig orkuverðið hækkaði bara og hækkaði og hækkaði og ekkert væri að sjá fram undan en hækkun á orkuverði.

Hvað sjáum við gerast á mörkuðunum í kringum okkur núna? Olíuverðið fellur og fellur. Bandaríkin orðin sjálfum sér næg með orku, sem þurftu að flytja hana inn í verulegu magni. Þannig hefur mikið breyst í heiminum á stuttum tíma. Reynsla okkar er einfaldlega sú að það er viðskiptalífið sjálft, hinn frjálsi markaður og samkeppni, sem er best fært um að finna fjárfestingarkostina. Það eru síður stjórnmálin eða félagslegar stofnanir eins og lífeyrissjóðirnir sem eiga að sérhæfa sig í því verkefni.