144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:14]
Horfa

Þórunn Egilsdóttir (F):

Hæstv. forseti. Talið um byssur og vopnaeign leiðir huga minn að því að nú er að renna upp rjúpnaveiðitímabil. Það stendur í 12 daga. Það má veiða í þrjá daga í senn, frá föstudegi til sunnudags, fjórar helgar í röð. Síðasti veiðidagur er 16. nóvember.

Það er ekki víst að veðrið verði veiðimönnum hliðhollt alla daga og því er mikilvægt að huga vel að undirbúningi. Ég hvet alla sem ætla að ganga til veiða að huga vel að þeim undirbúningi. Menn þurfa að þekkja vopnin sín, vita hvað þeir eru með í höndunum, hvernig á að fara með það og gæta varúðar í öllu. Það er mjög mikilvægt að menn kanni landslagið, þekki til staðhátta og láti vita af sér. Áður en farið er af stað er mjög mikilvægt að vera í vatnsheldum skóm með grófum sóla því að maður veit aldrei í hverju maður lendir.

Ef maður villist af leið er mjög gott að hafa áttavita, kort og fjarskiptatæki til að láta vita af sér. Þannig er það með mörg verkefni sem við förum í því að það er árviss viðburður að björgunarsveitir eru ræstar út til að bjarga rjúpnaskyttum í vanda.

Veiðimönnum ber skylda til að gera sitt ýtrasta til að fyrirbyggja slíkt. Því er undirbúningurinn það sem öllu máli skiptir og ég hvet okkur til að gæta vel að honum.