144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:18]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Stóra málið í dag er þessi stóraukni vopnaburður lögreglu, en það er svo margt annað líka sem við þurfum að ræða. Hér eru vandkvæði í húsnæðismálum og það er verið að loka dyrum á framhaldsskólanema og fólk eldra en 25 ára.

Ég var í gær á baráttufundi tónlistarskólakennara þar sem var mikill hugur í fólki. Við eigum að veita því athygli að krafa þeirra er sú að þeir séu jafnsettir í launum og aðrir kennarar. Það er ekki ósanngjörn krafa. 530 félagsmenn eru núna í verkfalli sem þýðir að stór hluti barna og ungmenna fær ekki tónlistarkennslu í dag og kannski ekki á morgun heldur. Þeir eru búnir að vera samningslausir síðan 31. mars og samningafundi var slitið í gærkvöldi og ekki von á að boðað yrði til fundar á næstunni. Hún var samt bjartsýn, formaðurinn þeirra, og lagði áherslu á að fara í þá umræðu með það að leiðarljósi að þessi mál yrðu leyst.

Veltum fyrir okkur hvernig við gætum hugsað okkur daginn ef við lokuðum tölvunum okkar, það væri engin tónlist í sjónvarpinu, engin tónlist í útvarpinu, það væru engir tónleikar — það væri hvergi tónlist. Veltið því bara fyrir ykkur hvernig ykkur liði.

Þetta gerir mannlífið alveg ótrúlega miklu auðugra. Ég held að ekkert okkar vildi vera án tónlistar. Ég trúi ekki öðru en að við styðjum kjarabaráttu tónlistarskólakennara. Mín skoðun er reyndar sú og það er í stefnu Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs að ríkið taki við framhaldskennslu í tónlistarskólum. Ég vona að því verði komið á fyrr en síðar og auðvitað eiga tónlistarskólakennarar ekki að blæða fyrir ágreining og deilur milli ríkis og sveitarfélaga.