144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:25]
Horfa

Vilhjálmur Árnason (S):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að segja að það er mikill ábyrgðarhlutur hvernig talað er um vopnamál lögreglunnar. Þess vegna vil ég segja við suma fjölmiðla og þingmenn að þeir eiga að skammast sín fyrir hvernig þeir fara fram. Þeir tala um mál sem þeir eru ekki með 100% upplýsingar um og segja (Gripið fram í: Af hverju …?) í öðru orðinu að það sé mjög hættulegt að lögreglan vopnist af því að þá vopnbúast andstæðingarnir, glæpamennirnir. Hvað hefur þessi málflutningur haft annað að segja en að lögreglan sé að vopnbúast eitthvað meira en hún hefur gert? Það er mjög alvarlegt ef þingmenn og fjölmiðlar eru að dreifa þessum upplýsingum.

Lögregla hefur haft skýra stefnu og hún er enn sú að hún mætir þeim sem eru óvopnaðir óvopnuð. Hún mætir þeim sem eru vopnaðir vopnuð. Það hefur lengi legið fyrir og hver sem hefur einhverja færni í að afla sér upplýsinga getur komist að því hvað lögreglan á mikið af vopnum og hvar þau eru staðsett. Það hefur verið á vef lögreglunnar síðan 2012. Það er úti um allt og hefur legið fyrir, þar á meðal MP5-hríðskotabyssur eins og við höfum talað um hér. Það voru til tugir svoleiðis hjá lögreglunni áður en þetta kom til.

Lögreglan hefur ekkert verið að fela það að hún eigi þessar byssur. Það hafa verið tveir opnir dagar hjá lögreglunni þar sem þessar byssur voru til sýnis. Hver sem er gat séð það. Hinn almenni lögreglumaður hefur vopnast hér í gæslu við NATO-fundi. Þar voru einhverjir fjölmiðlamenn.

Þetta snýst allt um öryggi lögreglumannanna og borgaranna. Þetta snýst ekki um neitt annað. Þess vegna þarf lögreglan að hafa þau öruggustu tæki sem til eru. Þess vegna hefur hún haft skammbyssur á öllum lögreglustöðvum um landið. MP5-byssan er notuð alveg eins og skammbyssa. Það er hægt að stilla hana þannig að hún sé með sömu virkni. Það er auðveldara að miða með þessari og auðveldara að nota hana og öruggara og þess vegna er hún í notkun í staðinn fyrir skammbyssuna. Við verðum að hafa þetta allt á hreinu þegar við erum að fjalla um þetta. Þetta snýst um öryggi lögreglumannanna og borgaranna (Forseti hringir.) og það hvernig við náum þessu öryggi fram. Það er ekki verið að breyta einu eða neinu. Það er verið að uppfæra búnað sem er til staðar nú þegar.