144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:29]
Horfa

Brynhildur Pétursdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég ætla að ræða störf þingsins undir liðnum um störf þingsins, sérstaklega það skipulagsleysi sem einkennir þingstörfin. Það er í raun engum öðrum að kenna en okkur 63 þingmönnum og er yfirleitt ekki útskýrt með öðrum hætti en að svona hafi þetta alltaf verið, eða jafnvel er sagt: Þetta var nú eiginlega verra hérna einu sinni, þakkaðu fyrir að þetta er alla vega orðið betra.

Eitt af því sem væri eftirsóknarvert og er gert í þjóðþingum nágrannalanda er að reyna að meta lengd umræðu. Það er forsendan fyrir því að hægt sé að skipuleggja þingstörf fram í tímann. Það gerum við reyndar í einstaka tilfellum. En af hverju ekki oftar, af hverju ekki alltaf?

Mér finnst þetta skipulagsleysi óþolandi. Það er í rauninni hætt við að þessi skortur á fyrirsjáanleika ýti undir ákveðið kæruleysi. Þið þekkið þetta, maður er kannski á skrifstofunni að reyna að nýta tímann, fylgjast með, ætlar að taka til máls undir einhverjum dagskrárlið. Maður sér að það eru tveir á mælendaskrá, kemur sér yfir, þá eru fjórir nýir komnir á mælendaskrá, kannski byrjuð einhver andsvarasúpa. Þá er spurning: Á maður að fara aftur yfir á skrifstofuna eða kemst maður yfir höfuð að þennan daginn? Ef maður ætlar ekki að vera vitlaus af pirringi þarf að temja sér visst kæruleysi. Mér finnst það ekki gott.

Það er tvennt sem skýrir kannski þessa stöðu. Það er fyrst og fremst tjáningarfrelsi þingmanna og það er auðvitað mikilvægt að við höfum tíma til að gera grein fyrir máli okkar. En mér finnst þessi rök eiginlega ekki eiga við árið 2014 með sama hætti og áður. Það er í raun ekki þverfótað fyrir skoðunum þingmanna. Þeir tjá sig hér, á netinu, bloggsíðum, skrifa greinar, mæta í fjölmiðla. Ég leyfi mér næstum að fullyrða að fá lönd flytja jafn margar þingfréttir og gert er hér á landi. Ég held að það sé engin hætta á því að einhver sem hugsanlega vill vita það viti ekki hvað einhverjum þingmanni finnst.

Hitt atriðið sem ég ætla að ræða betur síðar er staða minni hlutans á þingi og málsþófsvopnið sem minni hlutinn verður að hafa.

Ég ætla að vera þaulsetin í þessum (Forseti hringir.) lið í vetur. Ég ætla að drepa ykkur úr leiðindum. Þið búið ykkur bara undir það og vonandi taka fleiri þátt í þessum dagskrárlið.