144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

störf þingsins.

[15:32]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

(Forseti (EKG): Til máls tekur hv. 2. þm. Reykv. s., Sigríður Ingibjörg Ingadóttir.)

Þriðji.

(Forseti (EKG): Þriðji. Þetta var ekki „Freudian slip“.)

Herra forseti. Vorið 2013 samþykktum við í þinginu lög um velferð dýra. Í markmiðsgrein þeirra laga segir, með leyfi forseta:

„Markmið laga þessara er að stuðla að velferð dýra, þ.e. að þau séu laus við vanlíðan, hungur og þorsta, ótta og þjáningu, sársauka, meiðsli og sjúkdóma, í ljósi þess að dýr eru skyni gæddar verur. Enn fremur er það markmið laganna að þau geti sýnt sitt eðlilega atferli eins og frekast er unnt.“

Þessi lög skipta gríðarlega miklu máli og á grundvelli þeirra á ráðherra að setja reglugerð um aðbúnað og velferð dýra. Nú er búið að senda út drög að reglugerð um aðbúnað og velferð alifugla. Hávær mótmæli heyrast frá bæði Neytendasamtökunum og dýraverndarsamtökum vegna þess að verið er að veita heimildir fyrir lakari aðbúnaði en nú tíðkast.

Í annan stað er verið að fjölga kjúklingum sem mega vera á hverjum fermetra og það er líka verið að leyfa að hluti af goggnum á varphænum verði höggvinn af. Slíkt hefur ekki verið heimilt hér á landi.

Ég mun leggja fram fyrirspurn til ráðherra um það hvort þessi reglugerð yfir höfuð samræmist lögunum sem við settum hérna og harma það að fólk skuli láta sér detta í hug í dag að leggja til slíka meðferð á dýrum.