144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

verslun með áfengi og tóbak o.fl.

17. mál
[15:56]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir að fá orðið hér í upphafi þessarar atkvæðagreiðslu. Við umræðu um málið voru í reynd ræddar þrjár tillögur, sú sem flutningsmaður leggur til, að málið gangi til allsherjar- og menntamálanefndar þingsins, og í öðru lagi að málið gangi til efnahags- og viðskiptanefndar þingsins sem væri eðlilegt í þeim skilningi að málið hefur heyrt undir þá nefnd fram til þessa. Þriðji kosturinn er að vísa málinu til velferðarnefndar sem er eðlilegast í ljósi þess að um lýðheilsumál er að ræða, heilbrigðismál, og það heyrir undir velferðarnefnd.

Ég hef hins vegar ákveðið að draga þessa tillögu til baka í þeirri von og vissu að allsherjarnefnd muni skjóta málinu til umsagnar velferðarnefndar þannig að málið fái þá umræðu þar sem því ber.