144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:22]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Flutningsmaður hv. þm. Kristján L. Möller er meiri áhugamaður um byggingu Landspítalans en margir aðrir og skal hann hafa lof fyrir það. Ég er þó með nokkrar spurningar sem ég er að velta fyrir mér vegna þess að ég hef fyrir fram ekki mjög mikla trú á því að skipan nefndar af því tagi sem hér er lagt til muni skila nokkrum raunverulegum árangri eða að minnsta kosti ekki skila því sem hv. flutningsmenn þessarar tillögu eru að leitast eftir.

Ég spyr hv. þingmann hvort hann hafi velt því fyrir sér, þegar hann sat og samdi þessa þingsályktunartillögu, hvort eðlilegt væri að skipa nefnd af þessu tagi, þar sem verið er að fjalla um gríðarlega fjárhagslega hagsmuni, og gera það á þann veg að meiri hluti þingsins sé í minni hluta nefndarinnar, hvort það í sjálfu sér leiði ekki til þess að niðurstaða nefndarinnar, sem ég hygg að verði erfitt að ná, falli um sjálfa sig. Hefði ekki verið skynsamlegra í upphafi að leggja af stað með að nefndarskipan, ef á annað borð á að skipa svona nefnd, sem ég hef efasemdir um, mundi endurspegla þingið og þennan þingsal á þann veg að meiri hluti og minni hluti hefðu sína fulltrúa þar?