144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:24]
Horfa

Flm. (Kristján L. Möller) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta andsvar. Ég vona að hann komi inn í umræðuna um málið hér á eftir vegna þess að ég heyri að hann ræðir það af þekkingu og þetta er honum mikið mál líka, hann hefur mikinn áhuga á þessu eins og við sem erum flutningsmenn.

Nei, ég er ekki hræddur við skipun þessarar nefndar vegna þess að eins og fram kemur í tillögunni er þetta tilraun til þess að við förum upp úr hefðbundnum skotgröfum hér á Alþingi, minni hluti og meiri hluti, og reynum að vinna saman að því að finna þessu þjóðþrifamáli farsæla lausn og aðalatriðið er að tryggja fjármögnun.

Þetta er mikilvægt mál. Þetta er að mínu mati prófsteinn á hvað Alþingi getur gert. Geta hinir pólitísku flokkar lagt að baki pólitískar deilur og reynt að vinna að sátt, finna hentuga lausn, finna lausn sem allir eru sammála um að fara, sem er hin blandaða leið? Það er mikilvægt að gera.

Ég vil leita lausna í þessu máli. Ég vil leita lausna eins og gerðist á síðasta þingi við þingsályktunartillögu sem ég var 1. flutningsmaður að og fjöldi þingmanna flutti með mér. Það leiddi til þeirrar niðurstöðu að velferðarnefnd breytti tillögunni aðeins, hún var lögð fyrir Alþingi og þingsályktun var samþykkt, eins og ég vitnaði um í greinargerð, með 56 samhljóða atkvæðum. Okkur tókst þetta í fyrra. Ég vek athygli á því að 1. flutningsmaður var minnihlutamaður hér á Alþingi eins og ég er nú, en þessi lausn fannst.

Ég vil leita lausna og þess vegna segi ég: Ef það er eina vandamálið að meiri hlutinn hefur ekki meiri hluta í nefndinni (Forseti hringir.) þá er ég tilbúinn að rétta fram (Forseti hringir.) sáttarhönd. Er hv. (Forseti hringir.) þingmaður þá tilbúinn að samþykkja með mér (Forseti hringir.) tillöguna?