144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[16:59]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Steingrími Jóhanni Sigfússyni hjartanlega fyrir þessa „inspírerandi“ ræðu. Eins og vænta mátti er hann að sjálfsögðu öflugur stuðningsmaður þessa máls. Ég held að það sé ekkert mál sem þingheimur og þjóð geta sameinast um með jafn umsvifalitlum hætti og einmitt það að byggja nýjan Landspítala. Með engu móti er hægt að segja að hægt sé að finna eitthvert annað verkefni sem býr betur í hag fyrir framtíð þessarar þjóðar en það.

Ég tók líka eftir því að hv. þingmaður talar í lausnum. Hv. þingmaður, fyrrverandi fjármálaráðherra, benti á að hann hefur ásamt nokkrum þingmönnum Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs lagt hér fram alveg prýðilegt frumvarp þar sem lagt er til með hvaða hætti fjármagna eigi byggingu nýs Landspítala. Hann vill að menn haldi áfram töku auðlegðarskatts og vill nota það til þess. Það er alveg prýðileg leið sem ég gæti alveg fallist á. Það er ekkert ósanngjarnt að þeir sem eiga langmest í þessu samfélagi leggi af mörkum mest til þess að standa undir kostnaði.

Við vitum hvernig vindar blása á hinu háa Alþingi. Það þarf ekki mjög spámannlegan vöxt til þess að gera sér grein fyrir því að það er ekki meiri hluti fyrir því af hálfu núverandi ríkisstjórnar.

Hitt er alveg rétt að ef auðlegðarskatturinn hefði verið áfram við lýði og ef ríkisstjórnin hefði ekki lækkað veiðigjöldin og ef hún hefði ekki farið í skattalækkanir í fyrra, sem hinir lægst launuðu nutu í engu, má segja að við hefðum svigrúm sem dygði til þess að byggja bæði meðferðarkjarnann og rannsóknarkjarnann á fimm árum og greiða þann kostnað á tveimur árum.

En mig langar til þess að spyrja hv. þingmann: Ef svo fer að tillaga hans verði ekki samþykkt, hvaða leiðir sér hann þá til þess? Gæti hann t.d. fallist á að fara hina blönduðu leið, að eitthvað kæmi beint af fjárlögum? Sömuleiðis þá kæmi nokkuð til (Forseti hringir.) byggingarinnar af sölu ríkiseigna eins og (Forseti hringir.) t.d. hlutar ríkisins í bönkum.