144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[17:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Já, ég ætla engum leiðum að hafna fyrir fram sem gætu komið okkur áfram í þessu máli. Það mundi að sjálfsögðu hjálpa mikið ef við værum með einhverja beina fjárhæð inni á fjárlögum næstu fimm til sjö árin. Segjum að hér tækist nú allt í einu ævintýraleg samstaða um að leggja á auðlegðarskatt í fimm ár en hann væri bara helmingurinn af því sem hann var, ætli mönnum þætti það nú svo svakalegt? Þá værum við með fimm milljarða á ári í fimm ár, 25 milljarða, helminginn af fjárhæðinni. Þurfum við að selja mikið af Landsbankanum í viðbót, ef við menn vilja endilega fara þá leið til þess að búa bilið? Nei, ekki mjög mikið. Eða þá hreinlega að taka lán fyrir afganginum sem við mundum auðvitað ekkert eyrnamerkja Landspítalanum. Það sem gerðist væri það að afkoma ríkissjóðs yrði þá bara einhverjum nokkrum milljörðum lakari en ella hefði orðið og við fjármögnuðum það í gegnum venjulega fjármögnun ríkissjóðs í útgáfuáætlun hvers árs, við gæfum út ríkisskuldabréf og notuðum það í að byggja Landspítalann. Það er ekkert vandamál. Það vita allir sem eitthvað hafa komið að því máli. Ríkissjóður er ekki í neinum vandræðum með að útvega sér það fé. Hann þarf ekki að fara á hnjánum til lífeyrissjóða eða annarra slíkra aðila ef þeir eru tregir í taumi.

Auðvitað væri gaman að velta líka fyrir sér að gera þetta með sterku þjóðarátaki eins og gert var þegar hringvegurinn var lagður, eitthvað slíkt. Eigum við að gefa aftur út ríkisskuldabréf sérstaklega eyrnamerkt því að byggja þjóðarsjúkrahúsið og hafa happdrætti í því og sjá hvort menn mundu ekki kaupa talsvert? Það þyrfti ekkert að vera á einhverjum rjúkandi vöxtum, held ég, til þess að þjóðin tæki vel í það.

Það eru auðvitað margar blandaðar leiðir til. En frumvarp okkar er til að sýna að það er hægt að fara þetta hreint og beint í mark með einhverri slíkri ráðstöfun. En svo má auðvitað skoða það að ná mönnum saman utan um einhverja blöndu. Við (Forseti hringir.) erum nú báðir þekktir fyrir að hafa stutt blandaða (Forseti hringir.) leið hér í ríkisfjármálum á sínum tíma.