144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[17:03]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Af því sem hv. þingmaður sagði skiptir mestu að hann kveðst ekki útiloka neina leið til þess að ná þessu þjóðþrifamáli af stað. Það er sá hugur og sá vilji sem skiptir mestu máli. Auðvitað er það grábölvað að horfa til þess að ef ríkisstjórnin hefði sett þetta sem eitt af öndvegisverkefnum sínum og frestað því að afnema auðlegðarskattinn og frestað því að lækka veiðigjaldið, þá hefðum við núna í höndum 20 milljarða til þess og mundi þurfa tvö ár til þess að koma því verki mjög rösklega af stað. Ef við hefðum líka frestað því að lækka tekjuskattinn í fyrra með þeim hætti sem gert var hefðum við þurft í tvö ár tekjur úr þessum þremur áttum til þess að standa undir, að ég hygg, hvoru tveggja, meðferðarkjarnanum, sem er mikilvægastur, og rannsóknarkjarnanum. Það hefði verið hægt að reisa þá á fimm árum. Þá eru menn komnir í þá stöðu að sparnaðurinn af rekstrinum í nýju húsnæði er sennilega 3 milljarðar á ári. Þá fer þetta nú að reka sig sjálft það sem eftir er.

Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Ég get sagt honum að ég mun með glöðu geði styðja tillögu hans. En að henni fallinni, því að allt bendir til þess þrátt fyrir sannfæringarmátt hv. þingmanns að honum takist því miður ekki í þessu efni fremur en öðrum að snúa núverandi ríkisstjórn frá villu síns vegar, þá verðum við að skoða málið upp á nýtt. En við erum sammála um það að við verðum að leita leiða. Það þarf kannski ekki að selja svo stóran hlut í Landsbankanum. Ég minni hv. þingmann á að það eru nú ágætlega verðmætir hlutir í öðrum bönkum líka sem nú þegar liggur fyrir kauptilboð í sem ríkið hefur átt og eignast fyrir hans tilverknað.