144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:27]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P):

Frú forseti. Ég kynntist lítillega stöðu barnaverndar í landinu fyrir svona 15 árum og fór svo að kynna mér lögin í kjölfarið. Ég var niðri í bæ og þar var 15 ára stúlka ofurölvi og algjörlega hjálparlaus þannig að ég athugaði hvort ég gæti aðstoðað hana, t.d. hringt í einhvern sem hún þekkti. Ég náði á endanum í móður vinkonu hennar. Hún vildi ekki hringja heim og tjáði mér síðan að hún væri beitt ofbeldi af föður sínum.

Ég fór því að kynna mér þetta mál og sem aktívisti á þessum tíma kynnti ég mér lögin hvað þetta varðar. Þar var ákvæði um að það ætti að vera til staður þangað sem börn í þessum vanda gætu farið ef þau yrðu fyrir heimilisofbeldi. Ég talaði við þau yfirvöld sem fara með málaflokkinn, barnaverndarnefndir á svæðinu og svona, og þessir staðir voru ekki til staðar. Menn báru fyrir sig fjárþörf, það væri bara ekki nægt fjármagn.

Ég hef ekki mikið kynnt mér málið síðan en ég vona að þetta sé í miklu betra horfi núna. Kannski veit ráðherra hvort betur sé farið með börn í svona vanda í dag. Svo vona ég innilega að hæstv. ráðherra hafi bolmagn til að tryggja fjármagn í þennan málaflokk til að tryggja að lögum sé fylgt og að við séum að bæta aðstöðu barnaverndar í landinu.