144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

staða barnaverndar í landinu.

[17:33]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Þá tek ég til máls á ný og get farið aðeins betur yfir málið. Nokkrir hv. þingmenn hafa talað um málefni Barnaverndarstofu sem ég vil líka ræða um í þessari seinni ræðu minni.

Mér rennur svolítið blóðið til skyldunnar. Afi minn var fyrsti forstöðumaður Unglingaheimilis ríkisins, hann Kristján Sigurðsson, sem varð kannski vísirinn að Barnaverndarstofu. Svo hef ég líka alist upp á meðferðarheimili fyrir unglinga sem Barnaverndarstofa rak.

Ég vil ræða aðeins áherslubreytingar. Eðli málsins samkvæmt er meginþungi starfsins á Reykjavíkursvæðinu, hér eru flest börn. Við þurfum hins vegar að ræða landsbyggðina líka og þá þjónustu sem þar þarf að vera. Svo má ræða það hvort í sumum tilfellum sé hollt fyrir börn að vera tekin út úr aðstæðum sem þeim eru ekki hollar eða frá foreldrum sem eru ekki í stakk búnir til að styðja við viðkomandi börn og veita þeim börnum meðferð annars staðar. Í framhaldi af fyrri spurningu minni til ráðherra í framhaldi af því sem hún sagði þegar hún talaði um landsbyggðina langar mig að heyra hvað hún sér fyrir sér í þeim efnum. Er ekki þörf á aukinni barnaverndarstarfsemi á landsbyggðinni?