144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[17:52]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þm. Kristjáni L. Möller fyrir að leggja fram þessa þingsályktunartillögu. Ég er einn af meðflutningsmönnum hennar.

Ég verð að byrja á því að segja að mér finnst skjóta svolítið skökku við að það þurfi í rauninni að leggja fram þingsályktunartillögu um að fylgja eftir annarri þingsályktunartillögu. Er það ekki svolítið furðulegt? Alþingi er búið að samþykkja, og við samþykktum það öll sem eitt sem vorum hér í þingsal í vor, að fela framkvæmdarvaldinu að finna leiðir til þess að endurbyggja og byggja við Landspítalann, en svo hefur lítið gerst. Við fáum litlar fréttir af stöðu mála þrátt fyrir miklar umræður sem við höfum reynt að eiga við bæði hæstv. heilbrigðisráðherra sem og hæstv. fjármálaráðherra. Þeir eru nú ekki alltaf sammála í þessum efnum. Það er þá ein leið, að bjóðast til þess að hjálpa til. Ég fagna því að við séum alla vega mörg sammála um að bjóða fram krafta okkar og bjóða það að sex manna þingnefnd hjálpi framkvæmdarvaldinu að finna leiðir til þess að byggja upp Landspítalann.

Við ræðum hér fyrst og fremst fjármögnunarleiðir, er það ekki? Eins og hv. þm. Valgerður Bjarnadóttir kom að á undan mér þá er fólk orðið frekar sammála um að það þurfi að fara í endurbyggingu og uppbyggingu á Landspítalanum. Nú ræðum við hvernig við ætlum að fjármagna það. Það er ekki auðvelt að finna út hvað stjórnvöld ætla sér í því efni. Við þurfum kannski ekki einu sinni að ræða forsendurnar fyrir því. Þær liggja alveg skýrar fyrir og fyrsti flutningsmaður fór mjög vel í gegnum þær allar í ræðu sinni. Þær liggja fyrir í greinargerð, en við ræðum hér leiðirnar að markinu.

Hæstv. heilbrigðisráðherra hefur talað um sölu ríkiseigna. Hæstv. fjármálaráðherra hefur slegið úr og í varðandi þá hugmynd, en mér fannst á honum að hann væri ekki á þeirri skoðun, að hann væri ekki sammála fagráðherra í málinu og talaði um að hugsanlega væri hægt að nýta væntan arð hjá ríkisfyrirtækjum í uppbygginguna. Hann sagði jafnframt að það mundi ekki mikið gerast á næstu þremur, fjórum árum. Þá varð ég mjög vonsvikin og hissa af því að ég hélt að við hefðum verið komin með niðurstöðu á síðasta þingi, ég hélt að skilaboðin hefðu verið mjög skýr. Þau voru það í augum þeirra 56 þingmanna sem greiddu atkvæði með fyrri tillögunni en þau hafa greinilega ekki borist hæstv. fjármálaráðherra.

Ég hef þess vegna verið að reyna að finna út hvað hæstv. ráðherra hugnist í þessum málum. Við höfum verið að ræða svolítið saman og ég hef reynt að grafast fyrir um af hverju hin svokallaða lífeyrissjóðsleið hafi ekki verið farin og á hverju hafi strandað þar. Mér skilst að það hafi bara aldrei verið útrætt. Ég hef spurt hæstv. fjármálaráðherra um þá leið, hvort hún sé nokkuð sem honum hugnist, en svo er ekki að skilja á hæstv. ráðherra, hann telur hana vera eins og hverja aðra lánaleið.

Við í Bjartri framtíð og ýmsir aðrir höfum nefnt lánaleiðina. Það er eins og það sé bannorð í þessum sal að tala um það, en það er ekki gert af neinni óráðsíu, við erum alveg jarðföst í þeim pælingum, en við viljum nefnilega skoða og fá á hreint þann kostnað sem fellur til í núverandi ástandi, þ.e. hvað það kostar að reka spítalann á 17 stöðum, hvað það kostar að vera ekki með hátækniþjónustu hér á landi á við PET-skanna, heldur sækja þá þjónustu til útlanda. Hvað með smit, flutninga og allt það sem rakið hefur verið vel, hvað kostar það okkur? Við höfum auðvitað séð ýmsar tölur en ég er ansi hrædd um að við höfum ekki fengið allan heildarkostnaðinn, því miður, af því að það er erfitt að taka hann saman.

Í þessu sambandi viljum við og margir aðrir ræða við stjórnvöld um hvort ekki væri skynsamlegra að eyða þeim pening í eitthvað sem stendur þó áfram í stað þess að kasta því út um gluggann, ef svo má segja, á ári hverju. Það er vissulega dýrt að vera fátækur og það verður sífellt dýrara í þessum efnum. Á meðan ekkert er gert köstum við peningum á glæ, það er nú bara þannig, og það engum smá fjárhæðum.

Mér finnst mjög undarlegt að heyra í þeim sem tekið hafa upp frasa um aðhald í ríkisfjármálum. Mér finnst undarlegt að heyra að þeim finnist í lagi að halda á þessum tilteknu ríkisaurum.

Ég fagna aftur þessari tillögu og við í Bjartri framtíð bjóðum fram alla krafta okkar og vonumst til að framkvæmdarvaldið geti nýtt þá eitthvað. En hitt er svo annað mál hvort þau vilja finna út úr þessu máli, ég er ekkert svo viss um það, það er að renna upp fyrir mér og það þykir mér mjög miður. Mér þætti bara miklu hreinlegra og betra ef stjórnvöld sæju sóma sinn í því að tala hreint út, t.d. tala hreint út við starfsfólk Landspítalans og láta það hreinlega vita af því að aðstæður þar séu ekkert að fara að batna næstu árin. Segið þeim það þá bara, ekki vera að draga fólk á asnaeyrunum og hafa það í vinnu og vekja einhverjar vonir hjá því sem munu væntanlega ekki standast. Þá vilja kannski þeir hjúkrunarfræðingar og læknar á Landspítalanum ekki eyða bara einni viku í mánuði í Noregi við að vinna sér upp tekjutapið við að vinna hér síðustu þrjár vikurnar í hverjum mánuði. Þetta fólk á rétt á því að fá heiðarleg svör og val um að gera þá eitthvað annað frekar en að sætta sig við þessar aðstæður.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra í bili. Ég vonast til að þessi tillaga fari til okkar í velferðarnefnd og hún gerir það væntanlega. Hún verður líklega afgreidd þar hratt og örugglega. Öll gögn málsins sem hægt er að finna liggja fyrir löngu fyrir og við vitum að við þingmenn hér á Alþingi erum sammála um að fara í uppbyggingu á Landspítalanum.