144. löggjafarþing — 23. fundur,  22. okt. 2014.

fjármögnun byggingar nýs Landspítala.

25. mál
[18:07]
Horfa

Björt Ólafsdóttir (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Til þess að taka af allan vafa þá vil ég ekki að hv. þingmenn skilji mig þannig að ég sé ekki ánægð með tillöguna. Ég er það, ég er meðflutningsmaður. En það er gott að eiga þessar samræður við hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Ég er honum alveg sammála um að það er mikilvægt að efla sjálfstæði þingsins. Það er raunverulega þannig að sérstaklega minni hlutinn — það hlýtur alltaf að vera þannig, hver svo sem þar er — hefur ekki mikið um málið að segja. Það er ef til vill betur hægt, þrátt fyrir allt tal um mikilvægi samráðs og sátta, þegar þingmenn hafa beinan aðgang að málinu.

Það er ágreiningur um leiðir og það er mikilvægt að við ræðum um þær. Við gætum orðið ósátt við hvaða leiðir ríkisstjórnin vill fara til að byggja upp Landspítalann. Ég segi fyrir mig að ég vil að það sé alveg á hreinu að Landspítalinn verði á einhverjum tímapunkti eign þjóðarinnar, að það verði ekki einkaaðilar sem reki hann í stórum stíl. Ég verð að segja að ég varð svolítið hrædd í þeirri umræðu sem ég átti við hæstv. fjármálaráðherra, þegar ég ræddi þessar leiðir við hann, um að hann væri ef til vill ekki sama sinnis. Þá hugsaði ég: Jæja, það er kannski betra — ég veit ekki hvort ég á að segja þetta — að láta kyrrt liggja.

Það er vissulega mikilvægast í þessu stóra máli að fólk (Forseti hringir.) komist að samkomulagi og þetta sé gert í sátt.